139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

sameining ráðuneyta og svör við spurningum ESB.

[10:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það kom fram í fréttum vikunnar að ríkisstjórnin áformaði að halda áfram með vinnu við sameiningu ráðuneyta, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis annars vegar og iðnaðarráðuneytis hins vegar.

Nú er það svo að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur margítrekað tjáð sig um að hann teldi það algera nauðsynjaleysu og hefur margítrekað komið hingað upp og sagt sig vera mótfallinn þeirri breytingu. Samkvæmt fréttum vikunnar hefur honum verið tjáð að þessu verði núna hrint í framkvæmd.

Það sem vekur upp spurningar í þessu samhengi er sú staðreynd að hér er á ferð sá ráðherra sem hefur haft hvað mestar athugasemdir við það hvernig viðræðuferlið við Evrópusambandið hefur gengið fram. Þess vegna vil ég bera það upp við hæstv. ráðherra hvort það sé í fyrsta lagi rétt sem spurst hefur að þau svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við fyrirspurnum Evrópusambandsins vegna rýnivinnunnar hafi verið send til utanríkisráðuneytisins en þar hafi því verið hafnað að koma þeim áleiðis til Evrópusambandsins. Er það svo að þegar sjálfur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirbýr og afhendir utanríkisráðuneytinu svör við spurningum Evrópusambandsins hafi utanríkisráðuneytið hafnað að bera þau áfram inn í samninganefndina og til Evrópusambandsins?

Hefur það komið fram í viðræðum á milli forustu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra að það liggi á að sameina ráðuneytin, einmitt vegna afstöðu ráðherrans í Evrópusambandsmálinu?