139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

Icesave og afnám gjaldeyrishafta.

[11:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það liggur algerlega fyrir að stefnt er að afnámi gjaldeyrishaftanna og ný áætlun um það mun líta dagsins ljós eins og ég sagði eftir rúmlega mánuð. Hún gengur út á skref til að afnema gjaldeyrishöftin. Ég held að allt tal um að það frestist í svo sem sex ár ef gengið verður að samkomulaginu um lausn Icesave-málsins sé algerlega órökstutt. Þvert á móti hef ég heyrt marga, og þar á meðal seðlabankastjóra á fjölmennu málþingi á Akureyri síðastliðinn föstudag, halda hinu gagnstæða fram og rökstyðja það að lausn Icesave-málsins sé liður í því og til undirbyggingar því að afnema gjaldeyrishöftin. Þær fjárhæðir sem þar eru á ferðinni eru hverfandi borið saman við t.d. krónueignir útlendinga, snjóhengjuna sem svo er kölluð, upp á 400 milljarða kr. Lausn Icesave-málsins og einhverjir tugir milljarða til eða frá þar eru því hverfandi fjárhæð borið saman við heildarsamhengið. Ég held að það sé ekki rökstutt með neinum gögnum, þvert á móti held ég að óvissan sem tengst hefur óleystu Icesave-máli hafi kannski verið frekar þrándur í götu þess (Forseti hringir.) að við gætum afnumið gjaldeyrishöftin en hitt. Ég er því sammála seðlabankastjóra um að farsæl lausn Icesave-málsins greiðir götu þess að við getum afnumið gjaldeyrishöftin.