139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

erlendar fjárfestingar.

[11:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir mikinn áhuga erlendra aðila á fjárfestingum í atvinnulífi hér á landi hefur lítill árangur orðið af þeirri vinnu sem unnin er á þeim vettvangi. Þeir sem til þekkja telja að það sé stefna eða stefnuleysi og misvísandi skilaboð stjórnvalda sem sé þar helst um að kenna. Kristallast þetta í stefnu stjórnvalda t.d. í svokölluðu Magma-máli þar sem viðhöfð hafa verið ámælisverð vinnubrögð að mati umboðsmanns Alþingis og nú heyrist það í fjölmiðlum að Alcoa hyggist segja sig frá hugmyndum um atvinnuuppbyggingu á Bakka vegna aðgerðaleysis og stefnu stjórnvalda.

Er ráðherra sammála þeirri fullyrðingu sem fram hefur komið hjá ASÍ og Samtökum atvinnulífsins að aukin verðmætasköpun byggð á grundvelli framleiðslu útflutningsafurða sé grundvöllur að endurreisn efnahags- og atvinnulífs landsmanna og að til þurfi að koma bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi til að ná þessu mikilvæga markmiði? Hvaða skilaboð vill ráðherra við þessar aðstæður senda íbúum í Þingeyjarsýslum í ljósi þess að það erlenda fyrirtæki sem mestan áþreifanlegan áhuga hefur sýnt á uppbyggingu á svæðinu og talið er af heimamönnum vænlegast til samstarfs á þeim vettvangi hefur nú að því er fram kemur í fjölmiðlum ákveðið vegna stefnu stjórnvalda að draga sig út úr því ferli sem verið hefur í gangi?

Hvað vill ráðherra gera varðandi kaup Magma á HS Orku í ljósi þess að nú hefur komið fram að umboðsmaður Alþingis snupraði forsætisráðherra og ríkisstjórn fyrir vinnubrögð í því máli? Deilir ráðherra áhyggjum með aðilum vinnumarkaðarins og þeirra opinberu aðila sem að þessum málum starfa af því að það orðspor sem stjórnvöld skapa með slíkum vinnubrögðum hræði erlenda fjárfesta frá Íslandi?

Þetta eru einfaldar spurningar, virðulegi forseti, sem ég ber fyrir hæstv. fjármálaráðherra og ég bið um einföld svör.