139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

sala Sjóvár.

[11:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að biðja hæstv. forseta að minna hæstv. fjármálaráðherra á mikilvægi þess að virða hlutverk Alþingis sem handhafa löggjafarvalds, fjárveitingavalds og eftirlitshlutverks þess. Það kom fram í fréttum í gær að búið væri að selja Sjóvá. Ég hef verið með fyrirspurn í þinginu frá því 7. desember þar sem hef ég ítrekað spurningu Ríkisendurskoðunar, sem er undirstofnun Alþingis, um það á hvaða lagaheimild ráðherrann byggði ákvörðun um að leggja Sjóvá – Almennum til eiginfjárframlag að upphæð 11,6 milljarðar kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að fjármálaráðuneytið hefði ekki svarað þessum spurningum.

Ég spyr líka í þessari fyrirspurn af hverju viðskiptin hafi ekki verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og hvernig ráðherrann hyggist bregðast við (Forseti hringir.) athugasemdum stofnunarinnar (Forseti hringir.) um ríkisstyrk. Þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir sem koma (Forseti hringir.) fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þarna sýnir ráðuneytið (Forseti hringir.) fullkomið virðingarleysi gagnvart Alþingi.