139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um fimmtu framkvæmdaáætlun íslenskra ríkisstjórna um aðgerðir til að vinna að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi. Áætlunin er til fjögurra ára, frá 2011–2014, og er lögð fram á grundvelli 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framkvæmdaáætluninni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma, lýsa verkefnum sem ýmist varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynja.

Þessi áætlun er með nokkuð breyttu sniði frá því sem verið hefur. Í stað þess að telja upp verkefni eftir hverju ráðuneyti er henni skipt í átta kafla eftir áherslusviðum ríkisstjórnarinnar. Kaflarnir heita: Stjórnsýslan, Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur, Kyn og völd, Kynbundið ofbeldi, Menntir og jafnrétti, Karlar og jafnrétti, Alþjóðastarf, og loks Eftirfylgni og endurskoðun. Undir hverjum þessara kafla jafnréttisáætlunarinnar eru talin upp þau verkefni sem unnið verður að, þau tímasett, ábyrgðaraðilar tilgreindir og kostnaður vegna þeirra áætlaður. Verkefnin eru samtals 38 og er gerð grein fyrir hverju þeirra í þingsályktunartillögunni. Miklu skiptir að fylgja áætluninni eftir sem og framgangi verkefnanna. Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til 2009, um að styrkja stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu, var sett á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja og er hlutverk hennar að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Ráðherranefndin gegnir virku hlutverki við að fylgja framkvæmdaáætluninni eftir.

Gerð áætlana í jafnréttismálum, líkt og kveðið er á um í lögum, er ótvírætt mjög mikilvæg leið til þess að jafnrétti kynja í víðum skilningi fái athygli og umfjöllun sem nauðsynleg er. Miklu skiptir að áætlunin fái góða umfjöllun á Alþingi og kynningu úti í samfélaginu þannig að vitund um verkefnið sé víðtæk og um þau ríki sem mest eining. Þess ber að geta að ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gengu í gildi árið 2008 þar sem m.a. er kveðið á um nýjar leiðir við undirbúning þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Höfð skal hliðsjón af umræðu jafnréttisþings sem ætlað er að vera samræðuvettvangur þeirra sem láta sig jafnréttismál varða. Jafnréttisþing var haldið í janúar 2009 og tekur þingsályktunartillagan mið af umræðum sem þar fóru fram.

Sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni fylgir skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins sem lögð var fram á síðasta jafnréttisþingi og þar er jafnframt fjallað um framkvæmd verkefna í síðustu þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Mun ég síðar leggja fram, eins og lögin gera ráð fyrir, að nýju skýrslu um stöðu og þróun í jafnréttismálum á jafnréttisþingi sem haldið verður 4. febrúar nk. — þingi sem rétt er að vekja athygli á hér.

Virðulegi forseti. Margt hefur áunnist á liðnum árum í jafnréttismálum og fært okkur í rétta átt. Í sumum tilvikum má þakka árangurinn beinum aðgerðum en oft er ekki augljóst hvað nákvæmlega hefur orðið til þess að bæta stöðuna. Vinna að jafnréttismálum snýst að verulegu leyti um að breyta viðhorfum, stuðla að auknum skilningi fólks á jafnréttishugtakinu, samfélagslegri ábyrgð og virðingu fyrir mannréttindum. Allt þetta starf skilar árangri og því mikilvægt að stjórnvöld leggi við það rækt, gæti jafnréttis í öllum sínum athöfnum.

Í stjórnmálum hefur hlutur kvenna aukist verulega á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins og kona leiðir ríkisstjórnina. Þá hefur hlutur kvenna í nefndum og ráðum hins opinbera farið ört vaxandi í kjölfar lagasetningar 2008 þar sem kveðið var á um hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í stjórnum fyrirtækja í atvinnulífinu hefur lítið miðað í þessum efnum og því var samþykkt lagabreyting sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífinu. Einnig hafa verið gerðar lagabreytingar til að styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali.

Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi heldur áfram og ríkisstjórnin leggur þunga áherslu á að ná árangri. Árið 2006 var samþykkt fjögurra ára aðgerðaáætlun til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem unnið hefur verið eftir hingað til. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umfangi og eðli kynbundins ofbeldis og gefin hafa verið út fræðirit um ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum, fræðirit sem einkum eru ætluð ljósmæðrum, lögreglumönnum og starfsfólki í félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Unnið er að gerð nýrrar áætlunar um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi þar sem sérstök áhersla verður lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu, en sem kunnugt er fara afar fá mál af þessum toga alla leið í gegnum dómskerfið. Auk þess þarf að móta afstöðu til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og endurskilgreina verkefni með hliðsjón af honum og verður það hluti af verkefnum nefndar um gerð nýrrar aðgerðaáætlunar.

Í þingsályktunartillögunni sem ég mæli hér fyrir er kveðið á um endurskoðun gildandi jafnréttisáætlunar allra ráðuneyta. Þetta er nauðsynlegur þáttur í því að stuðla að og viðhalda jafnrétti kynja á málefnasviðum þeirra. Það fellur í hlut ráðherranefndarinnar sem ég gat um áðan að fylgja eftir úrbótum innan stjórnkerfisins. Einnig er kveðið á um að styrkja stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Unnið verður að samþættingu jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslunni. Sem dæmi um verkefni þar sem kynjasamþættingu verður beitt eru aðgerðir til að vinna gegn kynbundnu starfsvali karla og kvenna við vinnumiðlun og skipulag virkra vinnumarkaðsúrræða þar sem tryggt verði að öll störf standi jafnt konum sem körlum til boða. Enn fremur verði gætt að jafnræði kynja við sértækar aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að fjölgun starfa og nýsköpun. Á sviði menntamála verði gert átak í jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.

Áfram verður unnið að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar sem felur í sér að kynjasamþættingu verði beitt í öllu fjárlagaferlinu. Þannig verði metið hver séu líkleg áhrif fjárlaga á aðstæður kynjanna og er markmiðið að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Fjármálaráðuneytið hefur gefið út handbók um kynjaða fjárlagagerð sem sérfræðingar innan Stjórnarráðsins geta nýtt sér við framkvæmd verkefnisins um kynjaða fjárlagagerð í þessari aðgerðaáætlun.

Ég nefndi áðan lagasetningu sem gerð var til að efla hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífinu. Það hallar enn á konur á íslenskum vinnumarkaði og það á einkum við um launamun kynjanna og hlut kvenna í stjórnum og áhrifastöðum. Kynbundinn launamunur mælist enn verulegur þótt mælingum beri ekki að öllu leyti saman vegna mismunandi aðferða við nálgun viðfangsefnisins. Vandinn er engu að síður raunverulegur og alveg ljóst að við verðum að finna leiðir og grípa til raunhæfra aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun. Í áætluninni eru lagðar til sjö aðgerðir í þessu skyni sem ráðist verður í á gildistíma áætlunarinnar. Meðal annars að lokið verði við gerð jafnréttisstaðla eða -staðals, launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt svo unnt verði að gera reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Starfsmat sveitarfélaganna verði skoðað út frá árangri við að draga úr launamun kynja og metinn ávinningur ríkisins af því að taka upp slíkt mat. Auk þessa verður efnt til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu vegvísis um launajafnrétti, gefinn verður út leiðbeiningabæklingur um túlkun ákvæðis um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf og gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.

Virðulegi forseti. Sú áætlun í jafnréttismálum sem hér er lögð fram er tillaga til þingsályktunar og fjallar um fjölmörg verkefni, hvert öðru mikilvægara um leiðir til að vinna að jöfnum rétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna. Þetta er metnaðarfull áætlun, skipulega fram sett með tímaramma einstakra verkefna, kostnaðaráætlun og skilgreindum ábyrgðaraðilum. Miklu skiptir að framkvæmdaáætlunin eigi sér sterkt bakland í Alþingi Íslendinga og að þingmenn allir leggist á eitt og vinni af heilum hug að framgangi jafnréttismála í samfélaginu svo við getum orðið öðrum þjóðum fyrirmynd í þessum efnum. Við erum mæld í fremstu röð á mörgum mælikvörðum jafnréttismála en við getum gert enn betur og þá er það ekki hvað síst launamunurinn sem þarf að laga og ofbeldið.

Ég treysti því og veit að þessi tillaga til þingsályktunar fær góða og málefnalega umfjöllun í þinginu og reikna með að við sjáum vandaðar athugasemdir og ábendingar í nefndaráliti frá hv. félags- og tryggingamálanefnd eftir umfjöllun um þingsályktunartillöguna.