139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:44]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að rétt sé að bæta því við umræðuna um fæðingarorlofið að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur beðið um skýrslu um áhrif breytinganna á fæðingarorlofinu frá velferðarráðuneytinu. Sú skýrsla er núna á lokastigi og ég vona að hún komi inn í þessa umræðu og verði í umræðunni um þingsályktunartillöguna og verði lögð fram hér í þinginu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að skoða hvernig fæðingarorlofið hefur reynst og hvaða áhrif þær breytingar sem gerðar hafa verið hafa haft á það.

Núna í lokin á seinni breytingunum á fjárlögunum hefur verið reynt að verja prinsippin í kerfinu, bæði hvað varðar lengdina og skiptinguna á fæðingarorlofsmánuðunum, en á móti kemur að upphæðir hafa lækkað verulega. Það hefur haft áhrif á hversu margir karlmenn hafa tekið fæðingarorlof, sem auðvitað ber að harma því að það var hluti af jafnréttishugmyndinni í fæðingarorlofinu að karlar kæmu meira að uppeldi barnanna í byrjun og raunar alla tíð.

Varðandi að fjárlögin séu atlaga að konum á landsbyggðinni ætla ég ekki að taka svo stórt upp í mig. Ég tel að það sé fullyrðing sem í sjálfu sér stenst ekki ef við skoðum reyndina þegar fjárlögin voru afgreidd. Ég held að mér sé óhætt að segja að það verður gaman að fylgjast með hvernig sá niðurskurður kemur niður á ólíkum stöðum og hver breytingin verður í mannafla á einstökum heilbrigðisstofnunum. Við höfum auðvitað séð það út frá nýjustu tölunum frá Landspítalanum að þar hefur á tveimur, þremur árum verið fækkað um 600–700 manns og það þarf, eins og hv. þingmaður sagði, ekki nema „kommon sens“ til að vita hvernig sú skipting er, hún kemur niður á höfuðborgarsvæðinu. Ég held því að málið snúist ekki um landsbyggð eða höfuðborg, aftur á móti snýst það um kvennastörf. En það verður líka að geta þess að þegar lagt var af stað í þessa vegferð, eins og hv. þingmanni er vel kunnugt um, bitnaði það fyrst á almenna markaðnum, á byggingariðnaðinum. Hér voru karlmenn í miklum meiri hluta í atvinnuleit eftir hrunið. Við vissum að (Forseti hringir.) með þeim aðgerðum sem lagður var grunnur að 2007 mundi koma að opinbera geiranum á árinu 2011 eins og er að gerast nú.