139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki rétt sem hv. þingmaður segir, að það sé fátt um svör. Ég vil ekki segja engin svör því að það er frekar þannig að það eru mjög mörg svör. Það eru til mjög margar og misvísandi rannsóknir sem full ástæða er til að skoða og fylgjast með, t.d. um hvað veldur kynbundnu starfsvali. Menn hafa líka leitt hugann að því hvort ástæða sé til að hafa áhrif á það. Er í sjálfu sér slæmt að ákveðnar stéttir séu bundnar við annað kynið? Er það ekki bara hluti af því vali sem við eigum að hafa ef ekki er um það að ræða að við takmörkum aðgang að stéttinni með misrétti milli kynja?

Menn hafa líka velt því upp að atvinnulífið í heild sé byggt þannig upp að það er karllægt, það kalli í rauninni á misrétti, að ákveðin störf henti betur körlum en konum. Það getur verið vegna vinnutíma, vaktakerfa, það getur verið spurning um hvaða kröfur eru gerðar til starfsins. Það þarf að eiga sér stað umræða um það og við þurfum að vinna markvisst að því að greina það betur, bæði í samskiptum við önnur lönd og út frá okkar eigin reynslu og taka afstöðu til þess hverju þarf að breyta. Ég held að það sé enginn ágreiningur um að við þurfum að breyta veikasta þætti okkar sem er launamunur milli kynja, að sömu laun séu veitt fyrir jafngild störf óháð kyni. Ég held að það séu allir sammála um það og við verðum að gera allt til að reyna að breyta því. Það er okkur til skammar.

Kynbundið ofbeldi getur ekkert okkar sætt sig við, það er einn af veikleikum okkar. Við fáum skýrslur um að það er meira en við getum nokkurn tíma sætt okkur við og raunar getum við ekki sætt okkur við neitt slíkt ofbeldi. Þá eigum við að vinna mjög markvisst og skipulega að því að reyna að koma í veg fyrir það. Það er líka spurning um hugarfarsbreytingu. Verkefnið er hið sama á hverjum tíma, það má aldrei falla niður, það er viðvarandi verkefni sem er hluti af mannréttindabaráttu í landi okkar og heimi. (Forseti hringir.) Þingið þarf að vera þar virkur þátttakandi.