139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarin kjörtímabil hef ég alltaf getað sagt frú forseti og ekkert þurft að hugsa mig um (Gripið fram í.) vegna þess að forsætisnefnd var eingöngu skipuð konum. Svo kemur hv. þingmaður og segir að Alþingi sé stýrt karllægt. Þá vil ég bara segja að þessar konur eru þá karllægar. (Gripið fram í: Eða karlægar.) [Hlátur í þingsal.] Það sagði ég ekki.

Þetta er nefnilega spurning um viðhorf og ég skil ekkert í hv. forsætisnefnd að hún skuli ekki hafa breytt þessu vinnulagi því að Alþingi er virkilega óbarnvænt. Maður má helst ekki eiga börn eða barnabörn á vissum aldri sem þarf að sinna.

Hv. þingmaður sagði, réttilega, að í menntakerfinu og sérstaklega í yngri bekkjunum væru eingöngu konur. Bíðum við, frú forseti. Þær eru sem sagt að ala upp litlu strákana og litlu stelpurnar og hafa mikil áhrif með því að segja þeim hvaða starf þau eigi að velja sér. Hvernig stendur á því að konur velja að fara í láglaunastörf og karlmenn velja að fara í hálaunastörf í kjölfarið? Ég bara spyr. Er það þessum konum að kenna sem eru í uppeldisstörfum í grunnskólunum?