139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að merking þessara hugtaka, karllægt og kvenlægt, sé býsna óskýr. Ég held að við ættum ekki að beita þessum hugtökum of mikið. Eins og ég sagði í fyrra andsvari virðist mér oft gripið til þessa hugtaks, karllægt, til að túlka það að einhver vilji í raun og veru hafa vinnustaðinn verri út frá fjölskyldusjónarmiðum. Það finnst mér ekki málstaðnum til framdráttar.

Ég held hins vegar að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún ræddi hér um ákveðinn kynslóðamun. Það er í sjálfu sér engin stjarneðlisfræði og er líklega mergur málsins, þjóðfélagið var þannig að karlmenn voru fyrirvinnur heimilisins í mjög miklum mæli og voru úti á vinnumarkaði. Við sjáum innsýn í svona heim í ágætum sjónvarpsþáttum sem heita Mad Men þar sem konan er heima við og sér um rekstur heimilisins. Svoleiðis var það. Ég held að við ættum óhikað að kalla það gömul viðhorf hjá þeim sem vilja hafa heiminn svoleiðis, og úrelt viðhorf.

Ég er hins vegar ekki viss um að það þjóni neinum tilgangi að kalla það karllæg viðhorf, a.m.k. eru það þá gömul karllæg viðhorf svo við notum hugtökin rétt. Ég held að það væri málstaðnum og auknu jafnrétti til framdráttar að við tækjum þá upp nýtt hugtak sem heitir hin nýju karllægu viðhorf. Þá stend ég hér sem málsvari þeirra og fer t.d. fram á það að þessi vinnustaður gangi á undan með góðu fordæmi og verði fjölskylduvænn. (Gripið fram í: Góður.)