139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði spurningunni eiginlega sjálfur þegar hann sagði að laun væru lægri í kvennastéttum. Hvað skyldi það nú vera? Af hverju er til eitthvað sem heitir kvennastétt? Hvers vegna fer annað kynið í þessa stéttina en ekki í hina? Það er akkúrat meginefnið sem ég fjallaði um.

Af hverju fara konur ekki á sjóinn? Af hverju fara þær í umönnunarstörf? Af hverju eru launin þar lægri? Það er ekkert sem segir að einstaklingur sem er orðinn tvítugur og þarf að velja sér nám eða starf þurfi endilega að fara í umönnun af því að hann er kona. Það er ekkert sem segir að hann eigi að fara á sjóinn af því að hann er karlmaður. Það er akkúrat þetta sem ég bendi á, ekkert annað. Konur velja sér starf sem vill til að er láglaunastarf. Það getur vel verið að það sé orsakasamhengi á milli þess að starfið verði láglaunastarf af því að konur eru í því. Ég vona að það sé ekki vegna þess að þær séu ekki eins duglegar að berjast fyrir kjörum sínum eða verkalýðshreyfingin sé ekki eins dugleg að berjast fyrir kjörum þeirra af því að þær eru konur.

Þetta er punkturinn: Af hverju velur fólk sér starf eftir kyni en ekki eftir launum?