139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[14:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þær skýringar sem forseti hefur nú veitt vegna þessara nýju frétta um að reynt hafi verið að brjótast inn á tölvunet Alþingis. Ég vil jafnframt fagna því að hún ætli að funda áfram með formönnum þingflokka og eftir atvikum forsætisnefnd til að upplýsa málið frekar.

Ég vil láta þess getið að ég tel að jafnvel þótt menn hafi af góðum hug og til að gæta öryggis fyrir tölvunet Alþingis tekið þá ákvörðun á sínum tíma að upplýsa ekki um málið þá hefði engu að síður verið rétt að gera það. Ég tel að mönnum sé augljóst í dag að það hefði þurft að skýra þingheimi frá þessum málum. Og jafnvel þótt grunsemdir beindust ekki að neinum sérstökum og niðurstaða rannsóknar lögreglunnar hafi ekki leitt neitt í ljós hver var þarna að verki þá höfum við nú þegar a.m.k. fengið upplýsingar um að hér voru fagmenn að störfum, ekki var hægt að finna nein fingraför, búið var að afmá öll auðkennismerki af tölvunni. Allt þetta samantekið og sú staðreynd að tölvunni var fyrir komið inni á skrifstofu þingmanns, á sömu hæð og þingflokkur minn hefur sínar skrifstofur ásamt þingflokki Hreyfingarinnar, er gríðarlega alvarlegt. Það er gríðarlega alvarlegt að hér hafi menn getað komið sér fyrir inni á þinginu til að gera tilraun til gagnastulds eða hlerunar vegna starfa þingmanna, gríðarlega alvarlegt mál.

Mig langar þó að geta þess að það er í sjálfu sér ánægjulegt að þingverðir skuli hafa uppgötvað málið, að þeir skuli fara inn á tómar skrifstofur og gæta að því hvort þar sé eitthvað á seyði og ber að þakka fyrir að menn skuli vera árvökulir og sinni starfi sínu vel. Um leið er það hálfsorglegt að einhver þau mistök skuli hafa verið gerð þegar tölvan er fjarlægð að það reyndist erfiðara að rannsaka málið í framhaldinu. En málið er komið í réttan farveg núna, frú forseti, með þeim yfirlýsingum sem hér voru gefnar og ég vil fagna því.