139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:06]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta eins og aðrir fyrir þá skýrslu sem hún veitti þinginu áðan. Ég tek undir það með hv. þm. Ólöfu Nordal að þeir tilburðir sem hér voru hafðir uppi í febrúar á síðasta ári eru auðvitað ekkert annað en gróf árás á Alþingi og alþingismenn alla. Og ég tek líka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið að auðvitað hefði átt að upplýsa þingmenn um það sem hér átti sér stað þannig að við hefðum vitað af því að einhverjir hefðu gert tilraunir til þess að komast í okkar gögn.

Ég spyr hæstv. forseta, af því að hún hefur lýst því yfir að ekkert bendi til þess að viðkomandi hafi tekist að ná fram vilja sínum og komist inn í tölvukerfið, hvort það bendi kannski eitthvað til þess að þeim hafi örugglega ekki tekist það. Eru einhverjar sannanir fyrir því að mönnum hafi ekki tekist að komast inn í tölvukerfi Alþingis og ná þar fram gögnum? Eru fullar sannanir fyrir slíku?

Ég vil segja að þessu máli má ekki taka af neinni léttúð. Þetta er ekki hluti af okkar daglega veruleika eins og hæstv. utanríkisráðherra lýsti yfir fyrr í dag. Það væri stórmál í hvaða landi sem væri ef reynt hefði verið að brjótast inn í tölvukerfi utanríkisráðuneytis, forsætisráðuneytis eða Hæstaréttar, hvað þá sjálfs þjóðþingsins. Það væri stórmál í hvaða landi sem er. Og mér finnst að allir þingmenn verði að taka því mjög alvarlega eins og þeir hafa tekið alvarlega ásökunum um hleranir gagnvart stjórnmálamönnum fyrir mörgum áratugum hér áður í umræðum.

Það hefur komið fram að hér voru fagmenn að verki, rannsókn á málinu stóð einungis í viku, við vitum um mannaferðir þar sem tölvan fannst og það liggur fyrir hvar hún var. Ég geri þá kröfu að (Forseti hringir.) efnt verði til annarrar lögreglurannsóknar á þessu máli og að málið verði rannsakað til hlítar.