139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. forseta fyrir skýrsluna er ég eins og aðrir hér, held ég, og ég held að allir landsmenn hljóti að vera, sleginn yfir þessum fréttum. Það alversta við þetta mál er að það er fullkomlega óupplýst. Það sem við vitum er að tölvur eru njósnatæki nútímans og af því að maður þekkir til aðstæðna koma ýmsar spurningar upp í hugann. Hvernig vissi fagmaðurinn sem kom þessu fyrir og vann þetta að þetta herbergi væri alla jafna autt af því að það er fyrir varaþingmenn? Nú er þó nokkuð snúið að komast inn í þessa byggingu. Hvernig gat þessi fagmaður, sem augljóslega ætlaði sér þessa hluti, ef marka má þær upplýsingar sem við fáum, komist þangað inn án þess að brjótast inn?

Virðulegi forseti. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum hér er um mjög skýran ásetning að ræða og það er alveg augljóst að þetta hefur verið undirbúið vel. Maður spyr sig líka ef aðilar eru tilbúnir til að gera þetta gagnvart þjóðþinginu: Eru einhverjar fleiri slíkar áætlanir í gangi gagnvart öðrum stofnunum þjóðarinnar? Í það minnsta, virðulegi forseti, verðum við ekki seinna en núna að skoða þetta mál betur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, því að það allra versta er óvissan. Við höfum engan áhuga á að það skapist tortryggnisástand á þessum vinnustað sem ekki hefur nú (Forseti hringir.) alla jafna verið þekktur að því og er sú stofnun þjóðarinnar sem við eigum að geta treyst eins og aðrar sambærilegar, ef þær eru til á Íslandi, að svona hlutir gerist ekki. Og það á svo sem við (Forseti hringir.) alls staðar.