139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fleiri þakka ég fyrir þá greinargerð sem forseti hefur flutt þinginu út af þessu máli. Eins og aðrir er ég slegin ugg yfir þessum tíðindum og segi eins og fleiri að hér er fjölmörgum spurningum ósvarað. (Gripið fram í.) Að rannsókn lögreglu skuli einungis hafa staðið í fáeina daga og ekki rætt við þingmenn alla í raun og veru, og alla starfsmenn þingsins, um mannaferðir og hugsanlega aðkomu að þessu máli. Ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi verið spurður út í nokkurn skapaðan hlut og við getum ekki sætt okkur við þau málalok að málið sé sagt fullrannsakað og það sé bara skilið eftir í einhverri skúffu hjá lögreglunni.

Leynd og öryggi fara ekki saman eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir benti á, enda má spyrja: Hverra öryggis er verið að gæta þegar leynd er slegið yfir mál af þessu tagi? Er verið að gæta að mínu öryggi sem þingmanns sem geymir gögn í tölvukerfi Alþingis, gögn sem almenningur hefur sent mér, jafnvel viðkvæm trúnaðargögn? Er almenningi ljóst að það er ekki óhætt að senda þingmönnum gögn og viðkvæmar upplýsingar sem varða félagslegan veruleika fólks, fjármál þess, jafnvel heilsufarsástæður og ýmislegt?

Mér er mjög órótt yfir þessu og ég spyr eins og síðasti ræðumaður: Hvernig komst tölvan inn í húsakynni Alþingis? Hvernig er háttað eftirliti með húsakynnum hér? Hversu lengi var tölvan þarna? Það að við þingmenn höfum ekki haft aðgát í okkar vinnu í fölsku trausti í heilt ár áður en málið upplýsist er auðvitað algjörlega óásættanlegt.

Frú forseti. Það hlýtur að þurfa að fara af stað önnur rannsókn á þessu máli. Mér finnst að lögreglan verði að gera grein fyrir sínu máli fyrir forsætisnefnd þingsins og mér finnst að þingið þurfi sjálft að standa fyrir innri rannsókn á því hvernig þetta gat gerst.