139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir greinargerð sína. Kannski er ekki ástæða til að lengja umræðuna mikið því að margt gott hefur komið fram en mér finnst þó rétt að árétta að ég tel málið komið í réttan farveg forsætisnefndar og formanna þingflokka þar sem farið verði yfir þetta mál, sem ég tel alvarlegt, út frá þessum tveimur hliðum, þ.e. annars vegar vinnulag Alþingis þegar svona mál koma upp og að mínu viti hefði verið eðlilegt að upplýsa alla þingmenn um málið.

Ég get tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra sem benti á að slíkir atburðir eru kannski orðnir miklu algengari en flestir gera sér grein fyrir en það er mikilvægt að taka þau mál til almennrar umfjöllunar í þinginu og hvaða varúð þingmenn þurfa að hafa í huga við meðferð rafrænna gagna, tölvupósta og annars slíks og hvernig eigi að bregðast við þegar svona atvik koma upp. Hitt er það að mér finnst líka sjálfsagt að hv. forsætisnefnd Alþingis og formenn þingflokka skoði þetta mál sérstaklega, aðkomu lögreglunnar að því og hvernig þessu máli sérstaklega verður lokið. En ég held að það sé líka mikilvægt að við hugsum um vinnubrögð Alþingis og hvernig við getum haft umræðuna sem best upplýsta og gagnsæja því að ég get líka tekið undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, leynd skapar ekki endilega öryggi. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að hafa í huga að framþróun í þessum geira hefur orðið mikil á undanförnum árum og erfitt er að leggja mat á það hvenær gögn eru afrituð og hvenær ekki. Það er því mjög mikilvægt að allir þingmenn fái sem mestar upplýsingar, bæði um þetta tiltekna mál og líka almenna þróun í þessum málum sem ég held að skipti okkur öll mjög miklu máli þegar flest okkar samskipti fara einmitt fram á hinum rafræna vettvangi. Ég tek undir alvarleika málsins en líka það sem hv. þingmenn hafa bent á að það er mikilvægt að þetta mál fari strax í þennan farveg og því verði fylgt eftir þar.