139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Flutningsmenn ásamt mér eru 17 þingmenn úr fjórum flokkum, öllum stjórnmálaflokkunum á þingi nema Hreyfingunni, og ég ætla að fara yfir flutningsmennina í upphafi. Þeir eru: Álfheiður Ingadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Íris Róbertsdóttir, Jón Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Vigdís Hauksdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun. Við vinnuna skuli m.a. lögð áhersla á að:

a. staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni,

b. sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í því augnamiði að tryggja sem best réttindi, skyldur og hagsmuni staðgöngumæðra og væntanlegra foreldra og réttindi og hag þeirra barna sem hugsanlega verða til með þessu úrræði,

c. verðandi staðgöngumæður og verðandi foreldrar verði skyldugir til að gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun. Frumvarpið verði lagt fram eins fljótt og mögulegt er, þó ekki síðar en 31. mars 2011.

Staðgöngumæðrun hefur komist í hámæli undanfarnar vikur og fagna ég því. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan litla drengsins Jóels sem fæddist með þessu úrræði á Indlandi sem athygli landsmanna hefur verið vakin á þessu úrræði sem ég legg til að verði heimilað í velgjörðarskyni á Íslandi. Það var þó ekki vegna þess máls, ég vil taka það skýrt fram, sem mín afskipti af þessu úrræði hófust. Þau hófust mun fyrr en mál Jóels litla. Ég hef í rúm tvö ár grafist fyrir um þetta og fór af stað vegna þess að til mín leitaði fólk sem hafði áhuga á að nýta sér þetta úrræði. Ég viðurkenni fúslega að ég var fyrst ekki búin að mynda mér skoðun á því hvort það ætti að heimila þetta eða ekki og vil segja strax í upphafi að ég geri ekki lítið úr því að hér sé um flókið mál að ræða, álitamál, en ég er samt sem áður algjörlega sannfærð um að þetta er úrræði sem við eigum að heimila hér og mun færa fyrir því rök. Ég vil líka taka fram að þetta mál snýst í mínum huga ekki um pólitík. Þetta er og á að vera þverpólitískt, þetta snýst um fólk, líf þess og á ekki að vera partur af pólitísku karpi. Þess vegna er ég afar ánægð með að hafa meðflutningsmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum á þingi sem sýnir að það er þverpólitískur stuðningur við þetta mál.

Er tímabært að heimila staðgöngumæðrun og þá með hvaða skilyrðum? Ég vil frekar spyrja: Hvað er því til fyrirstöðu að heimila staðgöngumæðrun? Ég ítreka að ég er alltaf að tala um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni en ekki í hagnaðarskyni eða á viðskiptalegum forsendum. Það er skýrt tekið fram í tillögunni. Með þeirri aðgreiningu einni saman tel ég mætt mörgum þeirra siðferðilegu álitamála sem menn sem eru andvígir þessu úrræði setja hornin í. Við erum komin svo langt á þessari leið, í tæknifrjóvgun og frjósemisúrræðum, að það er hægt að framkvæma hluti sem voru áður óhugsandi og við höfum þurft að kljást við þau siðferðilegu álitamál, t.d. hvað varðar uppruna barns, hvað varðar það hvaðan eggið kemur og hvaðan sæðið kemur vegna þess að við höfum heimilað, og nú síðast með lagasetningu um mitt síðasta ár, að nota bæði gjafaegg og gjafasæði til tæknifrjóvgunar. Hvorki móðirin sem fæðir barnið þarf að hafa nein erfðafræðileg tengsl við barnið né faðir barnsins, eða eiginmaður konunnar í því tilfelli.

Önnur rök sem vega þungt í mínum huga eru þau að við komumst ekki hjá því að skoða þetta hér á landi, einfaldlega vegna þess að tæknin er til staðar, úrræðið er til staðar og þetta er leyft í öðrum löndum. Íslendingar fara þá til annarra landa eins og nýjasta dæmið með Jóel litla á Indlandi er skýrt dæmi um. Ég þekki fjölmörg önnur slík dæmi. Ég veit um fólk sem hefur farið margoft til Grikklands til að leita þessa úrræðis. Ég þekki dæmi um fólk sem farið hefur til Bandaríkjanna. Fyrst við höfum á þessu miklar skoðanir, fyrst við viljum setja okkar siðferðislegu viðmið, okkar reglur, setja okkur þær skorður sem við teljum nauðsynlegar, eigum við að gera það og gera þetta löglega en ekki gera fólk sem í örvæntingu vill eignast barn að lögbrjótum.

Þáverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skipaði starfshóp á sínum tíma til að skoða kosti og galla löggjafar. Í heilbrigðisráðherratíð fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, stóð ráðuneytið fyrir málþingi þar sem áfangaskýrsla þessa starfshóps var kynnt og þar er farið yfir bæði kosti og galla þessa máls. Ég hvet menn til að kynna sér það álit þó að ég sé ósammála endanlegu áliti nefndarinnar sem var birt á heimasíðu ráðuneytisins í gær þó að það hafi verið dagsett í júní. Ég er að mörgu leyti ánægð með skýrsluna vegna þess að hún dregur fram ýmsar mikilvægar upplýsingar þó að ég sé ekki sammála öllum niðurstöðum. Þar eru m.a. raktir kostir við setningu löggjafar og segir til að mynda á bls. 16, með leyfi forseta:

„Kostir þess að setja löggjöf um staðgöngumæðrun eru að þannig er unnt að tryggja réttindi og skyldur staðgöngumóður, barns og verðandi foreldra. Með lögum um staðgöngumæðrun er jafnframt hægt að tryggja opinbert eftirlit með framkvæmdinni.“

Þetta tel ég lykilatriði og ítreka það sem ég sagði áðan, þá getum við sett okkar ströngu reglur og okkar ströngu viðmið og tryggt að hagur barnsins, staðgöngumóðurinnar og verðandi foreldra verði alltaf sem bestur. Þegar við flutningsmenn tillögunnar horfum á þetta eins og við viljum horfa á þetta, sem velgjörð, eru rökin gegn staðgöngumæðrun í rauninni léttvæg þegar við höfum það í huga að við heimilum nú þegar öll hin úrræðin, tæknifrjóvgun para, einhleypra og samkynhneigðra. Við leyfum eins og ég sagði áðan gjafaegg og gjafasæði og þetta er allt í stöðugri þróun. Við leyfum ættleiðingar barna, hvort sem er til einhleypra eða giftra, samkynhneigðra eða gagnkynhneigðra, og siðferðilegu álitamálin varðandi sjálfsmynd barnsins eru þannig komin fram. Hinum siðferðilegu spurningum og álitamálum hefur verið svarað af íslenska löggjafanum með því að heimila þessi úrræði. Menn geta svo haft sínar skoðanir á því hvort það hafi verið rétt skref. Það sjónarmið heyrðist frá siðfræðingi á málþinginu sem ég nefndi áðan að við værum komin allt of langt í þetta. Það er sjónarmið, en þá segi ég: Við förum ekki að bakka með það. Við erum komin á þennan stað og þess vegna held ég að við verðum að taka skrefið áfram með jafnréttissjónarmið í huga. Við Íslendingar höfum sýnt að við höfum umburðarlyndi fyrir mismunandi fjölskylduformum.

Þegar ég var að alast upp í Keflavík á sínum tíma, ekki svo langt síðan — (Gripið fram í.) ókei, það er svolítið langt síðan, mátti telja skilnaðarbörn á fingrum annarrar handar. Ég man ekki eftir að í bekknum mínum hafi nokkurt barn átt fráskilda foreldra og ég var mjög undrandi á að ekki ættu allir þrjú systkini eins og ég. Besta vinkona mín átti þrjú systkini, m.a.s. áttu sumir fleiri í mínum nánasta vinahóp, og fjölskyldumynstrið var pabbi, mamma, börn og bíll. Það er ekki þannig núna, sumar fjölskyldur samanstanda af tveimur pöbbum, börnum og hjóli. Það er kannski mamma, mamma, börn og strætó þess vegna.

Hvað hefur gerst? Við höfum sýnt þessum fjölskylduformum algjört umburðarlyndi. Ég tel okkur Íslendingum til mikilla tekna að við höfum þetta umburðarlyndi. Það er ekki langt síðan það þótti óhugsandi að feður væru viðstaddir fæðingu barna sinna. Það þurfti viðhorfsbreytingu til að feður kæmu meira að því dásamlega augnabliki sem fæðing barna er. Þegar við settum lögin um fæðingarorlof fyrir ekki svo löngu fengu feður fæðingarorlof til jafns við móður og þá þótti það ekkert alveg sjálfsagt. Feður voru hálffeimnir við að taka það og við þurftum að taka slaginn. Löggjöfin var á undan viðhorfsbreytingunni.

Það hefur verið notað í þessu samhengi sem mótrök gegn því að leyfa staðgöngumæðrun hér að þetta úrræði er ekki leyft á Norðurlöndum. Ég vil bara segja það hátt og skýrt úr þessum ræðustól að mér er alveg nákvæmlega sama þótt þetta sé ekki leyft á Norðurlöndum. Norðurlöndin höfðu heldur ekki breytt fæðingarorlofslögum sínum þannig að fullt jafnrétti ríkti við töku fæðingarorlofs þegar við gerðum það. Við veittum samkynhneigðum meiri réttindi í réttindabaráttu sinni fyrr en annars staðar á Norðurlöndum þannig að við eigum að taka forustu í þessu máli eins og við höfum gert áður í mannréttindamálum og eigum að vera stolt af því. Ég veit að annars staðar á Norðurlöndum verður okkur fylgt eftir vegna þess að þessi umræða á sér líka stað þar. Ég held að við ættum ekki að hafa áhyggjur af því og við þurfum heldur ekki að finna upp hjólið. Þegar við settum fæðingarorlofslögin vorum við dálítið að finna upp hjólið vegna þess að við skrifuðum þetta allt frá grunni. Við erum svo heppin varðandi þetta mál að það er leyft í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er leyft í Bretlandi, Hollandi — og Ísrael. Reyndar var það upplýst á opnum fundi um staðgöngumæðrun sem ég var áðan á um daginn að staðgöngumæðrun á sér ríkar hefðir í gyðingdómi. Þar þótti það sjálfsagt þannig að það kom fundarmönnum þar, og þeim fundarmanni sem kom með þessa ábendingu, ekki á óvart að þetta væri leyft og að þessi löggjöf væri svo skýr í Ísrael vegna þess að þetta snertir trúarbrögð þeirra langt aftur í aldir. Þetta er útúrdúr.

Staðganga hefur verið feimnismál og það hefur verið einblínt á neikvæðar hliðar staðgöngumæðrunar. Fólk er að velta fyrir sér hvers konar konur geti hugsað sér að taka það að sér að ganga með barn en ekki að eiga það. Ég kann ekki alveg við svona viðhorf í garð þeirra. Hugsum aðeins um það sem við höfum þegar leyft. Við höfum leyft að gefa egg og sæði. Hvaða meiri gjöf getur einn einstaklingur gefið en hluta af sjálfum sér?

Þegar um staðgöngumæðrun er að ræða og þau skilyrði sem við leggjum til leggjum við áherslu á að strangar reglur gildi. Þá er ein reglan sú að eggið megi ekki koma úr staðgöngumóðurinni vegna þess að það getur verið vandkvæðum bundið. Að sjálfsögðu tengist móðirin sínu eigin barni. Það sem ég legg áherslu á með þessu er að vissulega færir hver sú kona sem tekur það að sér að verða staðgöngumóðir mikla fórn og sýnir fórnfýsi. En ég vil ekki gera lítið úr því sem við höfum þegar leyft. Hversu mikil fórn er að gefa kynfrumu úr sjálfum sér, hvort sem það er egg eða sæði? Gefandinn sér afkomandann ljóslifandi fyrir sér með því úrræði.

Virðulegi forseti. Tíminn líður allt of hratt í þessari fyrri umr. Ég ítreka að ég held því ekki fram að staðgöngumæðrun sé einföld. Ég geri miklar kröfur til okkar á þinginu um að við skoðum þetta vel, finnum út úr því hvernig leysa skuli þau álitamál sem við vitum hver eru. Gleymum því ekki að við höfum reynslu af þessu frá öðrum löndum. Ég trúi þeirri (Forseti hringir.) umræðu sem við höfum heyrt á undanförnum vikum og (Forseti hringir.) gleymum því ekki að samkvæmt könnunum eru um 90% þjóðarinnar hlynnt þessu úrræði. Ég held að nú þurfum við að taka höndum saman, klára þetta mál, (Forseti hringir.) gera það þverpólitískt og vanda vel til verka. Þannig sköpum við eintóma hamingju.