139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessu máli og fyrir allan hennar dugnað og ósérplægni í að koma þeim málstað á framfæri. Mér er heiður að því að styðja málið. Ég tel að það eigi að samþykkja það, því fyrr því betra. Vegna þess að margvísleg álitamál eru uppi ætla ég samt ekki að mæla gegn því að þingið taki sér þann tíma sem þarf til að skoða það.

Hins vegar eru þessi siðfræðilegu álitamál þekkt og um þau hefur verið fjallað. Ég get einungis sagt það fyrir mína eigin hönd að ég er algjörlega sammála þeim skoðunum sem hv. þingmaður hefur lagt fram, t.d. um ábendingar og viðvaranir frá siðfræðiráði Læknafélagsins. Ég er henni líka sammála um að við Íslendingar höfum oft og tíðum haft frumkvæði í þessum efnum. Það var flokksbróðir hv. þingmanns, Þorsteinn Pálsson, sem á sínum tíma gekk skrefi lengra en allir höfðu þá gert þegar hann lagði sem dómsmálaráðherra fram ákveðnar hugmyndir í kjölfar skýrslu sem þáverandi ríkisstjórn, sem ég átti sæti í, gerði um málefni samkynhneigðra. Eins og hv. þingmaður bendir á hefur tæknin leitt til þess að það er hægt að vinna bug á því heilbrigðisfræðilega skilgreinda vandamáli sem barnleysi er með mörgum ráðum en ekki er hægt að bregðast við öllum aðstæðum. Sú aðferð sem hér er reifuð tekur á einu vandamálinu til viðbótar. Menn vildu ekki fara þá leið á sínum tíma eða skirrðust við að ganga svo langt af siðfræðilegum ástæðum.

Eins og hv. þingmaður sagði voru andmæli gegn því í samfélaginu. Menn lögðu ekki í það á þeim tíma. Síðan hefur verið mjög heilbrigð og fjölþætt og alhliða umræða um þetta sem hefur skýrt málið. Ég held að hv. þingmaður hafi vísað í skoðanakönnun sem sýnir almennt sammæli um þetta mál.

Ég kem einungis upp til að lýsa fullum stuðningi við þingmanninn og þetta mál.