139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar er ég aftur sammála hæstv. utanríkisráðherra. Ég held nefnilega að við séum búin að ræða okkur í gegnum þetta að því marki sem okkur mun takast að ræða okkur í gegnum þetta áður en við förum að vinna verkið. Það þarf að taka ákvörðun um það og þess vegna held ég að ef hæstv. heilbrigðisráðherra sem situr hér og hlustar á þessa umræðu fær skýrt umboð frá Alþingi Íslendinga með þeim skýra vilja Alþingis að heimila staðgöngumæðrum muni hæstv. heilbrigðisráðherra og hans fólk fara aftur vel yfir öll álitamálin og standa þannig að lagasetningunni að enginn vafi leiki á um að hagsmunir allra viðkomandi séu tryggðir. Ekkert okkar sem stöndum að þessu og erum áhugamenn um þetta vill setja málin í þann farveg að á því geti leikið einhver vafi. Síst af öllu viljum við koma því þannig fyrir að hægt verði að væna nokkurn mann um að stunda sölu á börnum eða eitthvað slíkt. Það er víðs fjarri mér að tala um það í þessu skyni vegna þess að þetta er úrræði fyrir barnlausa einstaklinga, tæknilegt úrræði sem fyrir hendi er og við eigum að passa að það verði vel úr garði gert.

Ég heyri mikið spurninguna um hvernig konur gætu hugsað sér að gera þetta, þær hljóti að vera eitthvað skrýtnar. Þá fór ég að hugsa um að það er svo margt sem maður ber virðingu fyrir að fólk vilji taka að sér en manni mundi aldrei detta í hug að gera sjálfur. Hvað með að fara í hjálparstarf á stríðshrjáðum svæðum? Mér finnst dásamlegt að einhver vilji taka það að sér. Ég ber virðingu fyrir því fólki. Ég er ekki viss um að ég hefði kjark til að gera það sjálf. Það sama má segja (Forseti hringir.) um björgunarsveitarmann sem sígur sex metra niður í gjótu. Ég dáist að honum, ég er ekki viss um að ég mundi þora það. Það sama á við um að taka að sér að vera staðgöngumóðir fyrir annað fólk.