139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og síðast hingað upp til að þakka hv. þingmanni stuðninginn við þetta mál. Hún fór vel yfir það hvernig hún skipti um skoðun og af hvaða ástæðum. Ég er mjög glöð að heyra að svo hafi verið. Ég tók því fagnandi þegar þingmaðurinn óskaði eftir að vera meðflutningsmaður að þessu máli vegna þess að ég tel mjög mikilvægt, eins og ég hef ítrekað, að um það ríki pólitísk sátt.

Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni þegar hún segir að við eigum að vera fyrirmynd og leggja okkur fram við að setja lagaramma sem aðrar þjóðir geti fetað sig eftir og við eigum að passa vel upp á og ekki sætta okkur við nokkuð af því sem hún lýsti svo ágætlega og á sér stað annars staðar. Það er algjörlega ljóst. Ég held því að við ættum að beina umræðunni um þetta mál inn á þær brautir að við séum að tala um þetta í velgjörðarskyni. Við skulum einbeita okkur að því og leysa úr þeim vandkvæðum sem kunna að vera fyrir hendi en leggja hitt til hliðar sem mér finnst stundum vera of fyrirferðarmikið í umræðunni.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni aðkomu hennar að málinu í heilbrigðisráðherratíð hennar. Þingmaðurinn lýsti því reyndar með fögrum orðum að ég hefði verið frekar þreytandi í þessu máli og ýtt á eftir því og biðst ég forláts á því, en hún tók hvatningu minni mjög vel. Það er ekki síst fyrir hennar tilstuðlan að þessari vinnu skuli vera lokið og að við stöndum nú á þeim (Forseti hringir.) stað að vera með góðan undirbúning og (Forseti hringir.) upplýsingar fyrir hendi.