139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er það sem ég á við, ég skil vel að fólk sé í öngum sínum, margt fólk hefur beðið lengi eftir að eignast börn og það vill fá þau úrræði sem fyrst sem til eru í heiminum, eins og þetta.

Hins vegar á ég við að við þurfum að vanda okkur við ákvörðunina. Við þurfum líka að virða sjónarmið þess fólks sem er á annarri skoðun. Ég held að það geti verið mjög skynsamt fólk sem er á annarri skoðun. Ég held t.d. að ef ég kemst að annarri niðurstöðu en hv. þingmaður segi það ekkert til um skynsemi mína. Það segir kannski að ég hafi komist að annarri niðurstöðu af einhverjum siðferðislegum ástæðum en það þarf ekki að þýða að ég sé óskynsöm.

Ég vara við að keyra málið of hratt. Ég get alveg hugsað mér að tillagan verði t.d. afgreidd í mars.

En ég held að þetta sé mjög viðkvæmt mál fyrir marga. Ég held að það sé betra að fara hægt en að reyna að keyra það í gegn með offorsi.