139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:58]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér höfum við verið að ræða tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þá þrautseigju og þann áhuga sem hún hefur sýnt í þessu máli, og komið því hingað inn til þingsins. Tillögunni verður vísað til hæstv. heilbrigðisnefndar. Ég vil sem formaður þeirrar nefndar láta þá skoðun mína í ljós að mér finnst mikilvægt að málið verði tekið alvarlega, að vel verði farið yfir það, því eins og fram hefur komið í dag eru mörg álitamál í þessu efni.

Ég ætla ekki að gefa upp mína skoðun á þessu máli. Ég hef verið frekar haldið mig til baka hvað varðar staðgöngumæðrun og talið að við þyrftum að fara okkur hægt í því. En mér finnst mikilvægt að fara í þessa vinnu með opnum huga og skoða rök með eða á móti, sjá hvaða áhrif þetta hefur hvað varðar aðstöðu kvenna hér á landi, horfa á þetta í víðara samhengi, hvort við teljum að við séum í stakk búin til að vera í fararbroddi fyrir Norðurlöndin að fara þessa leið.

Ég vil hrósa hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hennar fyrir að fara þá leið sem hér er farin, að leggja áherslu á að þetta sé gert í velgjörðarskyni, að það sé hugmyndin á bak við þetta. Við þekkjum dæmi þess að náskyldir einstaklingar hefðu gjarnan viljað aðstoða á þennan hátt í velgjörðarskyni og verið tilbúnir til þess, rétt eins og fólk er tilbúið til að gefa annað nýrað ef maður getur horft á það sem sambærilegan velgjörning. En þó að við leyfum staðgöngumæðrun hér á landi kemur það samt ekki í veg fyrir að fólk yrði eftir sem áður, vildi það fara þessa leið, að leita aðstoðar utan landsteinanna. Það er ekki víst að í nánasta umhverfi finnist einhver kona sem væri tilbúin til að gera slíkt í velgjörðarskyni. Hvað eiga þau hjón eða sambúðarfólk að gera ef sú kona finnst ekki?

Ég tel að þrátt fyrir þá leið sem hér er farin og þann ramma sem yrði settur utan um staðgöngumæðrun væri ekki hægt að koma í veg fyrir að fólk leitaði annað. Það eru margar ljótar hliðar á staðgöngumæðrun. Ég held við getum öll verið sammála um það, hvar sem við erum í flokki, karlar eða konur hér á þinginu, að við eigum að leggja okkur fram um að koma á heilbrigðu viðhorfi í þessum málum um allan heim. Við getum sem dæmi vísað í breytt viðhorf gagnvart vændi og vændiskaupum í Tælandi, hvernig alþjóðasamfélagið styður við Tælendinga til að koma í veg fyrir kynlífsiðkun og kynlífsiðnað sem þar var stundaður af vestrænum mönnum. Við eigum að leggja okkur fram um að stuðla að heilbrigðu viðhorfi til þessara mála og vinna að alþjóðasamþykktum til að koma í veg fyrir ólöglegt athæfi og illa meðferð á fólki. Alþjóðasamfélagið á að bregðast við því að konur séu leigðar út til að ganga með börn gegn gjaldi. Konurnar fá jafnvel ekki greiðsluna heldur er þetta ný leið til að leigja líkama þeirra út. Þær eru leigðar út gegn greiðslu til að fæða börn annarra. Þetta er starfsemi sem hefur sprottið upp vegna þeirrar eftirspurnar sem er fyrir hendi hjá vestrænu fólki. Við viljum koma í veg fyrir að slík starfsemi eigi sér stað. Þetta eru dökku hliðarnar á staðgöngumæðrun.

Ég tel mjög mikilvægt að þegar þessari þingsályktunartillögu verður vísað eftir umræðuna til heilbrigðisnefndar fari hún einnig til umsagnar í allsherjarnefnd, það þarf að horfa á þær hliðar málsins og kalla sem flesta að til að kortleggja sviðið. Áfangaskýrslu um málið var skilað til þáverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, sem byrjað var að vinna undir stjórn þess ráðherra sem á undan henni sat, og tel ég rétt að vísindasamfélagið haldi áfram að skoða þetta og vinna með okkur í því að velta upp ýmsum hliðum þess. Málið á ekki eingöngu að vera til umfjöllunar hér á þinginu heldur úti í nærsamfélaginu og er ég þá að vísa til háskólasamfélagsins og ýmissa sem láta sig þetta mál varða, til þess að við náum þjóðarsátt um framvinduna.

Ég tel mikilvægt að taka þetta mál til góðrar vinnslu. Ég get upplýst að á síðasta fundi heilbrigðisnefndar lagði ég upp hugmyndir að vinnu í nefndinni á næstunni, mál sem við vildum taka fyrir vegna þeirrar umræðu sem er í þjóðfélaginu í dag. Ég nefndi staðgöngumæðrun sem eitt af þeim málum sem við þyrftum að kortleggja og hafa sem umræðuefni í nefndinni. Nú er þingsályktunartillaga komin fram þannig að hér er verkefni sem bíður nefndarinnar.