139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:03]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í gærkvöldi var haldinn fundur í fjárlaganefnd þar sem farið var yfir samtal seðlabankastjóra Íslands og bankastjóra Englandsbanka. Á þeim fundi óskaði seðlabankastjóri Íslands, sem þar mætti, eftir fullum trúnaði nefndarinnar um þær upplýsingar sem þar voru lagðar fram.

Í framhaldi af þessum fundi hafa síðan vaknað umræður meðal fjárlaganefndarmanna í fjölmiðlum og þetta mál vekur mig til mikillar umhugsunar um það hvernig farið er með trúnaðarupplýsingar sem lagðar eru fyrir þingið. Ég spyr: Eru til einhverjar reglur, skráðar eða óskráðar, um meðferð trúnaðarupplýsinga? Þetta minnir á það að þegar við byrjuðum umræðuna um Icesave var fullur trúnaður og svo mikill um gögn málsins að allt var lokað af í herbergi og til að komast þangað inn þurfti að opna talnalás og lesa gögn undir öryggisvörslu. Sem betur fer var honum létt af en í ljósi umræðunnar vil ég upplýsa að ég hef óskað eftir því að fjárlaganefnd fari fram á að trúnaði af þessu samtali verði (Forseti hringir.) aflétt þannig að menn losni undan þeirri pressu sem verið hefur á þeim allt frá því að fundi lauk í gærkvöldi.