139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi þessarar umræðu get ég tekið undir að mér finnst eðlilegt að þetta samtal verði birt og að það verði gert þingmönnum aðgengilegt. Það er mjög erfitt þegar mál eru kynnt þannig í nefnd að það er óskað eftir fullum trúnaði og svo fara einstakir þingmenn, þar á meðal hv. varaformaður fjárlaganefndar, að túlka hlutina með sínu nefi og setja aðra í þá stöðu að þurfa hugsanlega að brjóta trúnað ef þeir ætla að mótmæla þeirri túlkun sem sett er fram. Þá held ég að eina leiðin til að hreinsa andrúmsloftið í þessu efni sé að gera þetta opinbert fyrir þingmenn þannig að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað sagt var og geti lagt sjálfstætt mat á það hvaða merkingu samtalið hafði. (Forseti hringir.)

Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort reglur um trúnað ættu ekki við um alla þingmenn, þar á meðal hv. varaformenn nefnda.