139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Við förum dálítið hring eftir hring þegar kemur að þessu blessaða Icesave-máli og þeim gögnum og upplýsingum sem koma fram vegna þess. Eftir að hafa lesið fyrir hádegi í dag í vefritinu Smugunni túlkun hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, á því hvernig hann lítur á það samtal sem farið var fram með í trúnaði í gær er afskaplega óþægilegt fyrir aðra þingmenn sem þurfa að taka afstöðu í því máli sem fyrir liggur. Ef það er svo þegar hv. fjárlaganefnd fær upplýsingar í trúnaði að einstakir þingmenn í henni kjósa að fara fram á völlinn og lýsa skoðunum sínum á hvað í því felst veldur það mikilli tortryggni í brjósti annarra þingmanna sem þurfa að leggja hlutlaust mat á málið.

Þegar svo er komið, virðulegi forseti, verð ég að fara fram á það við forseta að hann beiti sér fyrir því að bragarbót verði gerð á. Mér finnst auðvitað rétt (Forseti hringir.) að hv. þm. Björn Valur Gíslason skýri frá því af hverju hann kýs að koma svona fram.