139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

meðferð trúnaðarupplýsinga.

[14:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni komu fulltrúar Seðlabankans hingað í gær og ræddu við okkur um samtal það sem átti sér stað milli Davíðs Oddssonar og Mervyns Kings. Í kjölfarið var ákveðið að algjör trúnaður yrði á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Fjölmargir blaðamenn höfðu samband við mig og ég neitaði að tjá mig vegna þess að ég vissi vel að ef ég ræddi við þá yrði hægt að lesa í orð mín um innihald samningsins.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Oddný Harðardóttir, ákvað hins vegar að tjá sig um málið, og einnig varaformaður nefndarinnar á bloggi sínu. Það er mjög augljóslega hægt að lesa út afstöðu þeirra til þess sem kom fram. Við þetta er ekki hægt að una og ég hef því tjáð fjölmiðlum að ég hafi aðra skoðun á málinu en þar hafi komið (Forseti hringir.) en ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að Alþingi og fjárlaganefnd birti þetta (Forseti hringir.) samtal svo almenningur og fjölmiðlar í landinu geti metið það sjálfir hvort það sem þar kemur fram (Forseti hringir.) skipti sköpum um afstöðu manna til Icesave-málsins. Ég tel svo vera.