139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

kröfur LÍN um ábyrgðarmenn.

[14:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Eins og þingheimi er kunnugt var lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna breytt þannig fyrir skömmu að námsmenn þurfa ekki lengur að afla sér ábyrgðarmanna þegar þeir sækja um námslán. Það var mikið réttlætismál og framfaraskref þegar þessu var breytt. Nú hafa borist ábendingar og fregnir um að Lánasjóður íslenskra námsmanna beiti undanþáguákvæði sem er í reglugerð LÍN til að fara fram á það við námsmenn sem hafa sótt um greiðsluaðlögun að þeir afli sér ábyrgðarmanna á nýjum lánum. Ég veit til þess að þetta hefur orðið til þess að námsmenn sem eru í miðju námi þurfa, ef lánasjóðurinn heldur þessari kröfu til streitu, að hætta í námi vegna þess að þeir geta ekki aflað sér ábyrgðarmanna eða einfaldlega vilja það ekki vegna þess að það getur líka verið prinsippmál hjá fólki að vilja ekki setja ábyrgðarmenn á námslánin sín.

Hér beitir Lánasjóður íslenskra námsmanna undanþáguákvæði sem sjóðurinn hefur beitt til þess að láta námsmenn sem hafa farið á vanskilaskrá afla sér ábyrgðarmanna. Það skil ég. En mér finnst það ótrúleg tíðindi að Lánasjóður íslenskra námsmanna skuli leggja það að jöfnu að vera á vanskilaskrá og að hafa sótt um greiðsluaðlögun og láta það sama gilda um þessa tvo hópa, þ.e. að þeir verði að afla sér ábyrgðarmanna. Félags- og tryggingamálanefnd tók þetta til umfjöllunar i síðustu viku og fékk til sín fulltrúa frá sjóðnum. Mér heyrðist félagar mínir í hv. nefnd deila undrun minni á þessum vinnubrögðum lánasjóðsins og nú langar mig að vita hvort hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra deili þeirri undrun líka og hvort hún ætli að sjá til þess að lánasjóðurinn, sem heyrir undir ráðuneyti hennar, breyti þessum aðferðum.