139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

kjarasamningar og endurskoðun fiskveiðistefnu.

[14:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra vegna ítrekaðra ummæla forsvarsmanns Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálms Egilssonar, um að samtökin muni ekki ganga til kjarasamninga að þessu sinni nema framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins liggi fyrir klárt og kvitt. Ummælin hafa vakið furðu og hneykslan margra enda eru útgerðarfyrirtæki landsins ekki nema lítill hluti atvinnurekenda í landinu, nálægt 7%. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig það megi vera ef ríflega 2 þús. atvinnurekendur eiga að fara í hörð verkfallsátök til að sýna 190 kvótaeigendum samstöðu. Það stingur líka í eyru ef fámennur hagsmunahópur stórskuldugra atvinnurekenda á að setja stjórnvöldum afarkosti með þessum hætti og lýsir sig reiðubúinn til að taka kjarasamninga í landinu í gíslingu.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvernig þetta mál horfi við honum, hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju að ljá þessum hótunum eyra, en sömuleiðis hvort ráðherrann telji ekki að fiskveiðistjórnarmálin muni skýrast það vel á allra næstu vikum að þessi umræða verði óþörf í reynd.