139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

verðhækkanir á eldsneyti.

[14:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi var tilkynnt um verðhækkanir á eldsneyti, á bensíni og dísilolíum. Nú er svo komið að verðið á lítra af bensíni kostar 217 kr. og hefur aldrei verið hærra.

Þessar hækkanir voru rökstuddar með vísan til hækkaðs heimsmarkaðsverðs á olíu en ekki síður til skattahækkana ríkisstjórnarinnar á eldsneyti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir það að bensínlítrinn fari í 250 kr. ef ekkert verður að gert. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að langstærsti hluti bensínverðsins rennur til ríkisins. Ríkið tekur um eða yfir helminginn af verði hvers bensínlítra og í hvert skipti sem eldsneyti hækkar fitnar ríkissjóður eins og púkinn á fjósbitanum.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að venjulegt fólk í landinu geti ekki staðið undir þessum kostnaði og svo maður tali bara mannamál stefnir bensínverð á Íslandi í hreina sturlun. Þarna er allt of langt gengið. Eldsneytisverð á Íslandi er orðið allt of hátt. Við verðum líka að hafa í huga í þessu sambandi að fjöldi fólks í landinu getur ekki án bílsins verið; barnafólk sem þarf að skutla krökkunum sínum í og úr skóla og í tómstundir, landsbyggðarfólk þarf að nota bifreiðar, fólk sem þarf að fara um langan veg til vinnu o.s.frv. Ekki verður fram hjá því horft að þessar hækkanir rýra kaupmátt almennings alls, ekki síst þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Eitthvað verður að gera í málinu, þetta gengur ekki svona. (Forseti hringir.) Ég lít svo á að hæstv. fjármálaráðherra sé í lykilaðstöðu til að bregðast við þessum aðstæðum í ljósi þess sem hér hefur komið fram. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hann til hvaða aðgerða hann hyggist grípa til að lækka eldsneytisverð í (Forseti hringir.) landinu. Það verður að gera það.