139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

verðhækkanir á eldsneyti.

[14:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég gæti auðvitað reynt að koma þeim skilaboðum til OPEC eða þeirra ríkja sem þar ráða mestu að ég styðji þá afstöðu þeirra að skynsamlegt sé að auka framleiðslu við þær sérstöku aðstæður sem eru uppi á eldsneytismarkaði. Verðið er óvenjuhátt núna sökum aðstæðna á heimsmarkaði og reyndar gagnvart okkur vegna þess að dollarinn hefur styrkst. Miklir kuldar hafa verið í Evrópu og fleira hefur þarna áhrif, og það er sá tími ársins þegar eldsneytisverð er gjarnan hæst vegna kulda á vesturhveli jarðar.

Verðlagshækkanir sem urðu á bensíngjaldi og olíugjaldi um áramótin voru eingöngu verðlagshækkanir frá fyrra ári, auk þess sem kolefnisgjald var lítillega hækkað sem leggst auðvitað á allt jarðefnaeldsneyti. Skattlagningin hér er mjög í takt við það sem er í nálægum löndum. Ég hygg að bensínlítrinn sé dýrari í dag bæði í Danmörku og Noregi en hann er á Íslandi. Við höfum gert það ódýrara fyrir fólk að endurnýja hóflega sparneytna fjölskyldubíla. Það er ætlað til þess að stuðla að þróun í þá átt að menn endurnýi bílaflotann í sparneytnari og umhverfisvænni bílum og þá geta menn unnið gegn hækkandi eldsneytisverði. Ég held að það sé augljóst að við erum að glíma við tímabundið ástand. Allar líkur eru á því að eldsneytisverð fari síðan aftur lækkandi þegar dregur úr þeirri árstíðasveiflu sem núna er og þeim sérstöku aðstæðum sem ég hef farið yfir. Á þessu stigi mála eru því ekki nein áform um að breyta skattlagningunni af hálfu ríkisins enda vegur hún miklu minna í þessu tilviki núna í hækkununum að undanförnu en hækkandi heimsmarkaðsverð og breytingar á gengi.