139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

afskriftir skulda hjá ríkisstofnunum.

[14:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er mikilvægt að vel sé haldið á spöðunum til að tryggja að þær aðgerðir sem kynntar hafa verið í þágu heimila og fyrirtækja skili fullnægjandi árangri. Fram hefur komið að það sé vandi hjá Byggðastofnun sem telur sig ekki hafa til þess lagaheimildir að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja með fullnægjandi hætti. Við höfum leitað upplýsinga hjá iðnaðarráðuneytinu þar um og í gangi er vinna milli efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins um að skýra það mál og kanna hvort lagaheimildirnar séu fullnægjandi og gera þá breytingartillögur ef frekar þurfi að koma að.

Varðandi Íbúðalánasjóð er það rétt að komið munu hafa upp álitamál um það hvort sjóðurinn hefði fullnægjandi heimildir til að taka þátt í lækkun skulda einstaklinga niður í 110% af veðrými eigna í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar þar um. Nú er hins vegar löggjöf um málefni Íbúðalánasjóðs ekki á mínu forræði, ég get því ekki sagt nákvæmlega fyrir um hver niðurstaðan af þeirri athugun hefur verið en hæstv. velferðarráðherra fer með þann málaflokk.

Varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna eru það fréttir fyrir mér ef lánasjóðurinn telur sig ekki hafa heimildir til að fella niður skuldir gagnvart einstaklingum. Lánasjóðurinn er að sjálfsögðu ekki með veðskuldir en það sem auðvitað gerðist með lögunum um greiðsluaðlögun eins og frá þeim var gengið í vor var að námslánaskuldir voru undanskildar greiðsluaðlögun enda nokkuð annars eðlis en aðrar skuldir einstaklinga og stofnað til þeirra í öðrum tilgangi en annarra skulda en á móti kveðið á um að ávallt skuli þær vera frystar í þrjú ár meðan á greiðsluaðlögun stendur.