139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings.

[15:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Þau alvarlegu tíðindi voru að berast að Hæstiréttur Íslands hefur ógilt kosningu til stjórnlagaþings. Þá hefur það komið fram sem mjög var varað við í vinnslu þessa máls, að það væri ekki nógu vel undirbúið, lagasetningin væri óvönduð og verulegar hættur væru á því að gallar yrðu á málinu. Þegar Hæstiréttur Íslands kemst að slíkri niðurstöðu, eftir að búið er að kjósa til stjórnlagaþingsins þar sem menn buðu sig fram í trausti þess að allt væri með felldu, er það mjög alvarlegt mál og mikill áfellisdómur yfir þeirri ríkisstjórn sem nú situr og hæstv. forsætisráðherra.

Það er óhjákvæmilegt, virðulegur forseti, að þetta mál verði tekið til umræðu í þinginu án tafar. Ég fer fram á það við virðulegan forseta að hæstv. forsætisráðherra verði kölluð hingað í hús til að gera grein fyrir því hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst bregðast við. Þetta er því miður enn eitt dæmið um dæmalaus (Forseti hringir.) handarbakavinnubrögð ríkisstjórnarinnar.