139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Á síðastliðnu ári tók Alþingi ákvörðun um að efna til stjórnlagaþings sem hefði það verkefni með höndum að gera nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Um þetta voru skiptar skoðanir í þjóðfélaginu og innan veggja Alþingis. Þó var rík krafa um það, lýðræðisleg krafa, að þessi háttur yrði hafður á. Innan þingsins töldu ýmsir að við ættum ekki að bregða út frá þeim lögum sem við búum við og setja ætti þetta verkefni einvörðungu í hendur Alþingis, að Alþingi eitt ætti að hafa hér hönd í bagga. Hitt varð engu að síður ofan á, að efna til stjórnlagaþings og gefa þjóðinni tækifæri til þess að kjósa fulltrúa til að annast þetta verk. Síðan fengi Alþingi afurðina hingað inn og þetta yrði samtal milli þings og þjóðar.

Það var ákveðið í allsherjarnefnd að það yrði sett í hendur stjórnlagaþingsins að ákvarða hvernig ferlið skyldi verða hvað þetta snertir. Þótt það hefðu verið skiptar skoðanir innan þingsins þótti mér það mikið gleðiefni hve góður andi myndaðist í allsherjarnefnd Alþingis þegar við vorum að ganga frá þessum lögum vegna þess að almennt, hvaða skoðun sem menn höfðu haft á málunum, vildu menn sýna lýðræðinu og þjóðinni virðingu. Enginn alþingismaður og enginn stjórnmálaflokkur lagðist gegn þessu þegar til kastanna kom.

Síðan var efnt til kosninga og kosið til stjórnlagaþings. Nokkrir aðilar kæru framkvæmdina. Það fór til úrskurðar í Hæstarétti Íslands. Sá úrskurður liggur nú fyrir. Þann úrskurð ber að virða að sjálfsögðu og taka alvarlega. Hann hefur dæmt þessa kosningu ógilda. En ég vek athygli á því að í engu tilviki telur nokkur maður að á sér hafi verið brotið og enginn heldur því fram að niðurstaðan hefði orðið önnur þótt aðfinnsluefni Hæstaréttar hefðu ekki verið fyrir hendi. (Gripið fram í: Lögin voru brotin.) (Gripið fram í: Hefurðu ekki lesið kærurnar?) Lögin voru brotin, ég hef lesið þessar kærur. Ég er að segja það og þetta er grundvallaratriði (Gripið fram í: Voru ekki einstaklingar …?) að enginn einstaklingur telur að á sér hafi verið brotið (Gripið fram í: Kærendur …) og enginn hefur sýnt fram á að niðurstaðan hefði orðið önnur. (Gripið fram í: Lögin voru brotin.) Þannig var um hnúta búið að mati Hæstaréttar að það var ekki tryggt að rétturinn yrði virtur til hins ýtrasta. (Gripið fram í.) Það er möguleiki fyrir hendi að leynileg kosning væri ekki virt þó að ekkert hefði komið upp sem benti til að svo hefði ekki verið. Þetta er grundvallaratriði.

Þegar kveðið er á um lögmæti kosninga í kosningum til Alþingis og vísa ég í þar í 120. gr. kosningalaganna, 3. mgr., þarf það að hafa sannast að á einhverjum einstaklingi hafi verið brotið til að kosningin dæmist ólögleg. (Gripið fram í.) En gott og vel. (Gripið fram í.) En gott og vel. Ég ætla ekki að fara út í þessa sálma, ég er bara að setja málið í þetta samhengi, í þetta samhengi hlutanna.

Ég er að halda því fram og að sjálfsögðu staðhæfa og staðfesta að niðurstaða Hæstaréttar stendur, kosningin er ógild. Ég er að vekja athygli Alþingis og þjóðarinnar, sem fylgist með þessari umræðu og hlustar á hvað alþingismenn segja hér, á því að á engum manni var brotið og að niðurstaðan (Gripið fram í.) hefði ekki orðið önnur þótt annað fyrirkomulag hefði verið haft á.

Nú ætla ég að víkja að þeim þáttum sem hér eru gerð að aðfinnsluefni hjá Hæstarétti. Það er sagt að kosningin hafi ekki verið leynileg, að rekja mætti númer kjörseðils til kjósenda. Þetta er rétt. Kjörseðlarnir voru auðkenndir samkvæmt kosningakerfi sem við keyptum frá Bretlandi. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að seðill nokkurs einstaklings hafi verið rakinn með þessum hætti. En það er alveg rétt, seðlarnir voru auðkenndir. Pappírsskilrúm teljast ekki kosningaklefar í skilningi laga, það er rétt, þau töldust of lág. Þá vísa ég til þess vegna þess að við erum að ræða þessi mál, þá vísa ég til reynslu og framkvæmdar í öðrum ríkjum, í Bretlandi, í Írlandi, í Þýskalandi, þar sem minni kröfur eru gerðar en Hæstiréttur er að reisa. Gott og vel. Við virðum það, við virðum niðurstöðu Hæstaréttar, en ég vek athygli á þessu samhengi hlutanna.

Í þriðja lagi er talað um að reglu um að kjósandi mætti brjóta seðil saman áður en hann færi í kassa hafi ekki verið fylgt til að tryggja leynd. Um þetta eru hæstaréttardómarar ekki sammála en meiri hlutinn er á því máli.

Síðan segir eða er vísað til þess að kjörkassar hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um að unnt væri að læsa þeim. Þetta er rétt, þeir voru ekki læstir en þeir voru innsiglaðir og það mátti sjá á kössunum ef þeir hefðu verið opnaðir. Ekki einn einasti kassi var opnaður samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Þannig að aftur þarna var ekki brotið á neinum manni. Það var ekkert brot. En þessi möguleiki var fyrir hendi vegna þess að kassarnir voru ekki læstir.

Í fimmta lagi er fundið að því að umboðsmenn hafi ekki verið viðstaddir við talningu. Það er rétt. Umboðsmenn hefðu þá átt að vera 525 talsins ef allir hefðu nýtt sér þann rétt. Enginn krafðist þess að fá að vera viðstaddur kosninguna en það má að sjálfsögðu gagnrýna þetta, enda gerir Hæstiréttur það. Ég ætla ekki og er ekki að reyna að vefengja niðurstöðu Hæstaréttar og ítreka að ég segi að að sjálfsögðu er þetta niðurstaða sem við virðum. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar. En við alþingismenn hljótum að ræða þetta samhengi hlutanna vegna þess að hér hafa einstakir þingmenn komið upp og reynt að færa þetta mál inn í allt annað samhengi, (Gripið fram í: Allsherjarnefnd …) um að ríkisstjórnin sé að bregðast hlutverki sínu. (Gripið fram í: Já.) Að hún rísi ekki undir ábyrgð. (Gripið fram í.) Ég vísa þessu algerlega til föðurhúsa (Gripið fram í: Hún dugar ekki.) og hvet fólk til þess að taka þátt í þessari umræðu á málefnalegri hátt en hér er gert. (Gripið fram í.) Ég vísa til þeirrar … (Gripið fram í.) Ég vísa til andans sem var í allsherjarnefnd Alþingis síðastliðið vor þegar við afgreiddum þetta mál frá okkur mótatkvæðalaust (Gripið fram í: Nei.) og í þeim anda að það ætti að virða lýðræðislegan vilja í landinu. Við sammæltumst um það. Við skulum halda áfram á þeirri vegferð en ekki halda inn á þær brautir sem mér heyrist einstaka þingmaður vera að halda inn á. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)