139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það undir þessum málslið í síðustu viku hversu alvarleg staða er í samfélaginu, hversu alvarleg staða er á Alþingi. Ekki er hægt að segja annað en að staðan hafi enn versnað og auðvitað er gríðarlega mikilvægt að þingið taki af skynsemi og góðri yfirsýn á þeirri stöðu sem upp er komin.

Það skítkast, vil ég segja, og sú ómálefnalega umræða sem boðið var upp á m.a. af hæstv. forsætisráðherra í gær er óboðleg í þessu máli þegar hún vændi þingflokka um að vilja alls ekki fara í breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og ýjað var að leiðum til að fara fram hjá dómi Hæstaréttar í þessu máli og þetta flokkað sem eitthvert smámál. Þetta er auðvitað algerlega óboðlegt við þessar aðstæður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei hafnað því að fara í endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Sjálfstæðisflokkurinn er sammála því að fara í þá vinnu. Hann vill bara fara aðrar leiðir en hér er verið að leggja upp með og við viljum fara eftir miklu skynsamlegri leiðum, virðulegi forseti, en þeirri leið sem var valin. Það eru leiðir sem við teljum að yrði miklu meiri sátt um í samfélaginu alveg sérstaklega núna eftir þessa síðustu uppákomu. Það er hægt að gera með aðkomu þjóðarinnar eins og sýnt hefur verið m.a. með þjóðfundarfyrirkomulaginu. Þetta er ömurleg staða sem við stöndum frammi fyrir, virðulegi forseti, alvarleg staða. Ábyrgð þeirra sem keyrðu málið vanbúið í gegnum þingið er mikil og þeir reyna síðan að klóra yfir þetta mál núna sem áttu mesta þátttöku í því.

Búið er að verja hundruðum milljóna í að ætla að halda þetta stjórnlagaþing, hundruðum milljóna af almannafé. Við erum í ESB-viðræðum, aðildarviðræðum að Evrópusambandinu sem er borðleggjandi að munu stöðvast. Þessi ríkisstjórn mun aldrei koma því máli í gegn. Það kostar hundruð milljóna ef ekki milljarða. Hvernig ætla hv. þingmenn að réttlæta það sem hæstv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) hafa haldið hér fram, að það verði að endurtaka þessa kosningu og halda þessari vitleysu áfram? Það er kominn tími til að þingið axli ábyrgð (Forseti hringir.) og fari að láta taka sig alvarlega í samfélaginu (Forseti hringir.) og við förum að fara skynsamlegar leiðir.