139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um stjórnlagaþing -- íslenskur landbúnaður og ESB.

[14:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, umræðu sem snýr að stjórnlagaþinginu og þeirri meðvirkni sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ætla að sýna í málinu.

Að þeim orðum sögðum langar mig að benda á annað mál sem ekki er síður búið að sýna mikla meðvirkni í, það er hið svokallaða tölvumál Alþingis, þegar tölva fannst úti á nefndasviði, á þeirri hæð sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Hreyfingarinnar hafa aðsetur og starfsaðstöðu. Það vill þannig til að við erum með hegningarlög og í X. kafla þeirra er talað um landráð þar sem í 93. gr. segir: „Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram …“ skuli taka hart á því. Eins er í XI. kafla hegningarlaganna talað um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess.

Þetta er grafalvarlegt mál og mér finnst forseti þingsins og ríkisstjórnin öll hafa tekið þessari uppgötvun af mikilli léttúð. Sem dæmi má nefna að þegar þessir tveir helstu og þyngstu kaflar hegningarlaganna eru brotnir skuli ríkislögreglustjóri ekki hafa verið kallaður strax að málinu því að um njósnir gæti verið að ræða, njósnir sem snúa að löggjafanum sem er ein af þremur stoðum undir þrískiptingu valdsins. Við erum að tala um Stjórnarráðið, löggjafann og svo dómstólana. Brugðið var á það ráð að tölvudeild Alþingis var notuð til að hylma yfir í málinu. Eftir því sem manni skilst af fjölmiðlum var það tölvudeildin ásamt lögreglunni í Reykjavík sem var látin þagga málið niður. Þingmönnum var ekki tilkynnt um þetta mál, (Forseti hringir.) ekki var gripið til þeirra aðgerða sem átti að grípa til, (Forseti hringir.) að kalla ríkislögreglustjóra tafarlaust til.