139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

virðisaukaskattur.

164. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum Auk mín eru allmargir flutningsmenn eins og fram kemur á þskj. 180.

Frumvarpið felur í sem skemmstum orðum í sér að opnuð er heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt til sveitarfélaga vegna kostnaðar við eyðingu á ref og mink. Ef til vill má segja að í hinu stóra samhengi hlutanna teljist þetta ekki eitt af hinum stóru málum í þjóðfélaginu og sannarlega er það svo en þegar málin eru skoðuð dálítið þrengra og út frá sjónarhóli þeirra sveitarfélaga sem mega við búa er þetta býsna stórt mál. Ég held að það sé samdóma álit okkar þingmanna víðast hvar sem þekkjum til á landsbyggðinni og höfum starfað þar og átt samskipti til að mynda við sveitarstjórnarmenn að þetta mál liggur mjög þungt á þeim mörgum. Í mörgum sveitarfélögum er þessi kostnaðarliður, þ.e. veiðar á ref og mink, býsna þungbær fyrir buddu viðkomandi sveitarfélaga.

Landmikil sveitarfélög, sem í mjög mörgum tilvikum eru einmitt líka fámenn, hafa orðið að reiða fram miklar upphæðir á síðustu árum vegna veiða á ref og mink og greiða af því virðisaukaskatt til ríkisins. Í raun og veru er þetta samt sem áður einhvers konar samfélagslegt verkefni. Refur og minkur eru vágestir í náttúrunni og hafa sums staðar mjög slæm áhrif á lífríkið. Fuglalíf hefur látið undan á ýmsum stöðum og einnig eru mörg dæmi um að bændur hafi orðið fyrir tjóni við það að þessi dýr hafi lagst á búpening. Af þessu heyrðum við t.d. allmargar sögur í haust úr leitum að bændur urðu varir við að lömb og kindur hefðu orðið fyrir ágangi refa, m.a. voru okkur mörgum þingmönnum ef ekki öllum sendar ljótar myndir af þessu sem ég hygg að hafi vakið marga til umhugsunar. Það er því ekkert óeðlilegt heldur þvert á móti eðlilegt að ríkisvaldið komi að þessu verkefni með sveitarfélögum m.a. til að jafna þann mikla kostnað sem leggst annars með ósanngjörnum hætti á fámenn og landmikil sveitarfélög.

Það er líka svo að gert hefur verið ráð fyrir að ríkisvaldið kæmi að þessum málum með beinum fjárframlögum og þannig hefur það verið í gegnum tíðina. En þegar málin eru skoðuð kemur í ljós að þróunin hefur verið sú að heldur hefur dregið úr kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við veiðar á ref og mink og það er mat m.a. þeirra sem hafa stundað veiðarnar að þetta hafi valdið því að gætt hafi meiri ágangs þessara dýra með samsvarandi tjón í náttúrunni og fyrir bændur. Þetta er bersýnilega slæm þróun sem við þurfum einhvern veginn að bregðast við.

Ég lagði á sínum tíma fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um veiðar á ref og mink. Þar kemur mjög glöggt fram að dregið hefur úr fjárveitingum til veiða á ref og mink á undanförnum árum. Svar hæstv. ráðherra nær yfir fimm ára tímabil, 2005–2009. Hæst var fjárveitingin á árinu 2005, 45 millj. kr. á verðlagi ársins 2009 en 33 og 35 millj. kr. árin 2008 og 2009 á sama verðlagi. Með öðrum orðum, þessi fjárveiting hefur dregist saman ár frá ári.

Til viðbótar við þetta, eins og ég nefndi áðan, innheimtir ríkið virðisaukaskatt af veiðum á ref og mink og innheimtur virðisaukaskattur hefur verið, á verðlagi ársins 2009, í kringum 11 millj. kr. Hins vegar er athyglisvert þegar við skoðum þetta í lengra samhengi að virðisaukaskatturinn sem ríkið hefur fengið hefur hækkað sem hlutfall af fjárveitingum til málaflokksins á þessu tímabili. Þannig var virðisaukaskatturinn sem hlutfall af fjárveitingunni 24% árið 2005 en 33% árið 2009. Nettókostnaður ríkisins af veiðum á ref og mink var þannig 34 millj. kr. árið 2005 en 23 millj. 2009. Þetta gefur til kynna að sveitarfélögin hafi þrátt fyrir að dregið hafi úr fjárveitingum til veiða á ref og mink reynt að halda hlut sínum eins og þau hafa mögulega getað þótt það hafi valdið þeim miklum kostnaði. Það er hins vegar ekki nóg að gert að mati sveitarstjórnarmanna og þeirra sem hafa stundað þessar veiðar og bænda sérstaklega og þá er okkur nokkur vandi á höndum. Við getum auðvitað hugsað málið þannig að eðlilegt sé að halda áfram innheimtu á virðisaukaskatti af refa- og minkaveiðum og halda síðan í við þetta með fjárveitingum frá ríkissjóði en reynslan sýnir okkur einfaldlega að það er ekki mjög líklegt til árangurs. Tölurnar sem ég gerði hér að umtalsefni, sem sýna að fjárveitingar til þessa málaflokks drógust saman úr 45 millj. kr. 2005 í 35 millj. kr. 2009, segja auðvitað þá sögu að það hallar frekar á sveitarfélögin í þessum efnum.

Sú umræða hefur líka verið uppi að óeðlilegt sé að ríkið komi að einhverju leyti að því að styðja við veiðar á ref, að skoða beri þau mál allt öðruvísi en varðandi minkinn. Ég er ekki sammála þessu. Eins og komið hefur fram er refurinn líka vágestur í náttúrunni þó að hann sé landnemi hér, það eru dæmi sem við þekkjum, og bændur hafa talað um að þessa hafi gætt meira í haust en oft áður og rekja það m.a. til breytts tíðarfars sem hafi gert það að verkum að það sé meira um dýrin en áður.

Mjög hefur verið kallað eftir því að þessum málum verði komið í fastari skorður. Fámennari og landmeiri sveitarfélögin hafa sérstaklega kallað eftir því og eins og ég nefndi áðan er þetta verulegur útgjaldapóstur í rekstri margra þeirra. Samþykktir mjög margra sveitarfélaga og samtaka þeirra eru í þessa átt og þá má nefna að búnaðarþing árið 2010, þ.e. síðasta búnaðarþing, hvatti m.a. stjórnvöld til þess að endurgreiða sveitarfélögum að fullu virðisaukaskatt vegna þessara veiða.

Það er einmitt sú leið sem við flutningsmenn þessa máls leggjum til að farin verði til að tryggja það a.m.k. að einhverju leyti að sveitarfélögin verði ekki fyrir þessum mikla kostnaðarauka og því er lagt til að þessi leið verði farin.

Í svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn minni sem ég gerði aðeins að umtalsefni kemur fram að markmið með veiðum á ref og mink séu ólík, rétt eins og ég sagði áðan, og það er síðan rakið með hvaða hætti staðið hefur verið að veiðum á minknum. En ég ætla aðeins að vekja athygli á þeim hluta svarsins sem lýtur að refaveiðunum vegna þess að ég tel að þar séu á margan hátt ágætisrök fyrir því máli sem hér er verið að flytja. Með leyfi virðulegs forseta segir svo í svari hæstv. ráðherra:

„Markmið með veiðum á ref eru annars eðlis og miðast við að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum refa einkum á hlunnindum bænda. Refaveiðar eru á ábyrgð sveitarfélaganna en ríkinu er heimilt samkvæmt lögum að greiða allt að helmingi kostnaðar eftir því sem fjárlög veita svigrúm til. Þar sem refurinn er íslensk tegund er markmiðið með veiðunum fyrst og fremst að draga úr því tjóni sem hann veldur.“

Um það snýst málið. Það er enginn að tala um að útrýma íslenska refastofninum, það er einfaldlega verið að tala um að reyna að draga úr og helst að koma í veg fyrir það tjón sem hann veldur í lífríkinu þar sem við teljum að það sé óæskilegt. Það er kjarni þessa máls.

En aðalatriðið er þó það, virðulegi forseti, að þetta frumvarp er viðleitni í þá átt að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa orðið fyrir miklum búsifjum og auðvitað að koma til móts við þau sjónarmið sem bændur hafa líka verið með í þessu sambandi. Þetta er talsverður útgjaldaliður í einstökum sveitarfélögum. Ég aflaði mér upplýsinga um það við undirbúning málsins og þar kemur þetta glöggt fram. Við sjáum það líka þegar farið er yfir lista sem ég hafði undir höndum frá umhverfisráðuneytinu um endurgreiðslurnar á virðisaukaskattinum að þetta er mjög áberandi. Það eru einmitt þessi fámennu landmiklu sveitarfélög sem greiða mesta virðisaukann sem segir okkur auðvitað allt um það hvernig þessi mál hafa verið að þróast. Og þó að þau hafi líka fengið greiðslur til baka frá ríkinu vegur það stöðugt minna, eins og ég sagði áðan, og athyglisvert er þegar við berum saman annars vegar kostnaðinn eða fjárveitingarnar frá ríkinu vegna veiða á ref og mink og hins vegar innheimtan virðisaukaskatt að það dregur sífellt saman með þessum tölum sem segir okkur að nettókostnaður ríkisins verður æ minni en nettókostnaður sveitarfélaganna stöðugt meiri.