139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

virðisaukaskattur.

164. mál
[15:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er 1. flutningsmaður að. Ég er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi ásamt nokkrum öðrum.

Ég vil í upphafi máls míns segja að áður en málið var afgreitt fyrir rúmu ári, þ.e. við fjárlög ársins 2010, kom það þannig frá ráðuneytinu að það voru settar akkúrat 0 kr. í þetta framlag. Það var síðan hækkað í meðförum fjárlaganefndar og að því stóðu nefndarmenn í fjárlaganefnd þvert á flokka eins og stundum er sagt. Það var vegna þess að menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi málsins.

Það gerðist hins vegar aftur núna að ráðuneytið skar þennan fjárlagalið frá algerlega og því miður náðist ekki að gera breytingar á því við gerð fjárlaga fyrir árið 2011. Mig langar líka að rifja upp að við umræðu sem fór fram í árslok 2009 kom fram í máli hæstv. ráðherra að skipa ætti starfshóp til að fara yfir einmitt þessa hluti og hvernig mætti breyta þeim, en síðan er mér a.m.k. ekki kunnugt um að hann hafi skilað áliti. Það segir okkur, virðulegi forseti, að þó svo menn hafi ætlað sér að gera eitthvað, leggja drög að breyttum áherslum og fara yfir málið í heild og skila því til þingsins er það ekki gert. En eigi að síður er tekin sú afstaða núna að gera það.

Það kom berlega í ljós á fundi fjárlaganefndar í haust að það eru fámenn landstór sveitarfélög sem sinna þessu og verða að gera það vegna þess að þar eru bújarðir. Og það kom líka fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, og við sáum myndir af því í haust, hvernig refurinn getur farið með búfénað og annað og það er náttúrlega ekki gott, og þess vegna er það svo að sveitarfélög þar sem er kannski stundaður mikill landbúnaður sinna þessum verkefnum eins og þarf að sinna þeim.

Það er hins vegar mismunandi meðal sveitarfélaga hvernig þessu er sinnt. Sum sinna þessu akkúrat ekki neitt sem þýðir þá að það eru aukið flæði refs á milli sveitarfélaga, þ.e. ef því er ekki sinnt að halda niðri viðkomu refs í einu sveitarfélagi færist hann á milli sveitarfélaga því að það eru engin landamæri hjá refnum.

Við vitum líka að nú er refur friðaður til að mynda á Vestfjörðum og margir halda því fram að sú friðun geri það að verkum að þegar orðin er ákveðin fjölgun á því svæði leiti hann inn í sveitarfélög sem standa næst, næstu nágrannasveitarfélög. Þó svo ég hafi ekki á móti því að refurinn sé hugsanlega friðaður á einhverjum svæðum verða menn samt að bregðast við fjölgun hans á öðrum svæðum í kring.

Mér finnst síðan dálítið sérkennilegt í ljósi þess þegar menn tala um náttúruvernd að það hefur áhrif á fuglalífið og náttúruna í heild ef refastofninn fær að stækka ótakmarkað. Það er enginn að tala um að eyða refastofninum, alls ekki, heldur að það þurfi að halda honum í skefjum og innan skynsamlegra marka. Það er heldur engin vernd í því eða meðferð á dýrum þegar verið er að skjóta dýr á víðavangi, jafnvel yfir grenjatímann því þá gerist það hugsanlega að yrðlingarnir svelta til dauða inni í grenjunum og að er ekki góð meðferð á dýrum. Þetta eru margþætt atriði sem menn verða að skoða og fara vel yfir.

Síðast en ekki síst, og markmiðið með þessu frumvarpi er, að fari fram sem horfir núna hefur ríkið beinar tekjur af eyðingu refs, þ.e. það fær greiddan virðisaukaskatt. Það sem verið er að leggja til hér er eingöngu það að ríkið greiði til baka virðisaukaskattinn sem það leggur á sveitarfélögin til að standa vörð um það að refnum fjölgi ekki of mikið. Við skulum heldur ekki gera lítið úr því að hjá fámennum sveitarfélögum, landstórum sveitarfélögum, er þetta oft og tíðum mikill kostnaður og há prósenta í kostnaði hjá viðkomandi sveitarfélögum. Það eru staðreyndir málsins og það hefur margoft komið fram. Þeir aðilar sem hafa sinnt þessum störfum og þekkja mjög vel til, og ég gerði athugasemdir við það í umræðunni þegar verið var að skipa nefnd til að fara yfir þetta og meta áhrif óheftrar fjölgunar refs, fengu að sjálfsögðu ekki aðgang að nefndinni því það eru aðrir sem eiga að sinna því. Það eru miklir náttúruverndarmenn sem yfirleitt gera þetta og þekkja aðstæður mjög vel og gera þetta ekki öðruvísi en með umhyggju fyrir náttúrunni í heild. Það sjá allir að ef þetta yrði til þess að refnum fjölgaði ótæpilega, og við þekkjum það á mörgum svæðum, leggst fuglalíf af og refurinn leggst bæði á búfénað og ég tala nú ekki um æðarvarp.

Eins og kom fram í ræðu hv. flutningsmanns málsins er þetta einungis lítið skref og viðleitni í því að ríkið hafi í það minnsta ekki beinar tekjur af því að refastofninum sé haldið í skefjum heldur er reiknað með því að verið sé að draga úr því tjóni sem óheft fjölgun refs hefur í för með sér. Mér finnst það ekki mikil náttúruvernd, eins og sumir hæstv. ráðherrar kenna sig mjög við, að leyfa refastofninum að stækka óheft. Það er ekki mikið borð fyrir báru í mörgum sveitarfélögum eins og við þekkjum því að ríkið hefur verið að færa tekjur frá sveitarfélögunum til sín, eins og með hækkun tryggingagjalds, og því væri þetta það minnsta sem ríkisvaldið gæti gert að koma til móts við það. Ég vona svo sannarlega að frumvarpið verði samþykkt til að þó það skref verði stigið til baka og ríkið hagnist ekki á þessu með því að leggja virðisaukaskatt á sveitarfélög sem eru þó að reyna að vinna vinnuna sína og halda refastofninum í hæfilegri stærð.