139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

virðisaukaskattur.

164. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, og ræðum það að bæta inn nýjum tölulið um þjónustu grenjaskyttna við refa- og minkaveiðar. Hugmyndin er vitanlega sú að ríkisvaldið komi meira en áður eða a.m.k. fari til baka að einhverju leyti inn í þátttöku sína í þessum mikilvæga lið í bæði vernd og viðhaldi á náttúru landsins sem og til að tryggja bændum, í rauninni leyfi ég mér að orða það þannig, frú forseti, öruggara lífsviðurværi á jörðum sínum. Það eru ótrúlegar sögur sem við heyrum af búfénaði sem lendir í blessuðum refnum. Við höfum séð myndir nýlega í blöðum af slíku og það var að sjálfsögðu ekki fallegt. Þar fyrir utan, svo maður fari nú, frú forseti, úr einu í annað, þá er minkur, eins og fram hefur komið, aðskotadýr í íslenskri náttúru.

Þetta er að sjálfsögðu samfélagslegt verkefni, frú forseti, því að það er samfélagslegt verkefni að tryggja að atvinnugreinar eins og landbúnaður geti vaxið og dafnað og búið við öryggi. Það er líka samfélagslegt verkefni að tryggja að náttúran sé með þeim hætti eins og við viljum hafa hana sem besta og fjölbreyttasta. Þess vegna hef ég, frú forseti, undrast friðun á refnum fyrir vestan, ég held að það hafi verið mistök því að eins og við vitum þýðir ekkert að segja við blessuð dýrin: Þið megið ekki fara þarna eða ekki gera þetta. Þau fara að sjálfsögðu þar sem æti er og slíkt, halda sig sum hver reyndar, sumar tegundir, nálægt ákveðnum stöðum en önnur flakka mikið á milli.

Þá hefur það gerst, frú forseti, að bændur hafa upplýst að slík fjölgun hafi orðið, sérstaklega á tófunni, að gömul greni sem dýr hafa ekki verið í mjög lengi, jafnvel hreinlega í byggð, eru aftur komin með íbúa í þau greni, sem segir okkur að það er mikil fjölgun. Við sem höfum talað í þessu máli í dag þekkjum það líka á ferðum okkar um kjördæmin að það er óneitanlega sérstakt að sjá mjög oft tófur á ferðinni hreinlega yfir veginn og við veginn. Það er eitthvað sem maður hefur ekki séð lengi.

Fyrir einhverjum kunna þetta að vera léttvægir hlutir að tala um eyðingu á ref og mink og einhverjum kann að finnast að önnur verkefni séu mikilvægari, sem eflaust má rökstyðja á vissan hátt. Þetta er engu að síður dæmi um verkefni sem okkur ber að sinna, þ.e. þetta er hluti af samfélagsskyldunni, hluti af því að hafa landið eins og við viljum í rauninni hafa það.

Það sem gerist þegar kostnaðarþátttaka sveitarfélaganna er orðin svona mikil og rekstur þeirra er, eins og margra annarra, mjög þungur þá freistast sveitarfélög vitanlega, sem er eðlilegt, til að draga úr kostnaði við þennan þátt starfseminnar eins og allan annan, sem gerir það þá um leið að verkum að minna er veitt og þá fjölgar dýrunum. Þetta er eins og spírall eða hringur sem verður að rjúfa.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að það er mjög misjafnt hvernig þessu er sinnt. Það er að sjálfsögðu ákveðinn galli á stjórnun þessara veiða að mjög misjafnt er hvernig sveitarfélög sinna þessu. Þeim er það vitanlega í sjálfsvald sett. Sum sinna þessu mjög vel, setja í þetta töluvert mikla fjármuni, önnur sinna þessu frekar lítið eða illa. Það væri vitanlega skynsamlegast að einhvers konar samræmi væri í því hvernig þessu er sinnt og sjálfsagt þyrfti og þarf ríkisvaldið að koma að þessu með myndarlegri hætti. Það er mikilvægt að hemja útbreiðslu á þessum dýrum, bæði ref og mink, og það verður eingöngu gert með því að auka veiðarnar frá því sem nú er.

Ég vil þakka, hæstv. forseti, 1. flutningsmanni, hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni, fyrir að hafa frumkvæði að þessu því að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum í tengslum við sveitina, við landbúnaðinn, við þá sem eru úti í náttúrunni og sjá hvernig fuglalífið hefur lagst af á stórum svæðum út af þessum vargi, að við því sé brugðist. Því er þetta frumvarp lagt fram varðandi þessar breytingar að ríkissjóður komi í það minnsta til baka með virðisaukaskattinn sem er tekinn af þessari starfsemi. Það kann að vera að meira þurfi að koma til en þetta er í það minnsta fyrsta skrefið. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er ekki lítið eða léttvægt mál, þetta er mál sem snertir marga og margir hagsmunaaðilar eru að málinu. Það er samfélagið allt í raun. Vitanlega eru hagsmunir manna misjafnir en þegar við hittum göngufólk sem gengur mikið um ákveðin svæði vestur á Ströndum eða norður í landi og það kvartar undan því að það sé hætt að heyra í mófuglinum en sjái mikið af tófu hlýtur eitthvert samhengi að vera þar á milli. Ég ítreka það líka að ekki síður skiptir máli að bændur geti verið öruggir með búfénað sinn.