139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

hlutafélög.

176. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð og góðar spurningar.

Þeir annmarkar sem menn sjá á þessu og nefnt er í frumvarpinu sjálfu eru einmitt alþjóðleg samskipti. Ef við stofnuðum hér á landi gagnsætt hlutafélag sem innlendir fjárfestar mundu treysta fullkomlega gætu erlendir fjárfestar illa keypt í því nema þeir væru einstaklingar eða félög sem væru líka í eðli sínu gagnsæ. Það þarf að sýna allan eigendastrúktúrinn upp úr. Sömuleiðis getur gagnsætt hlutafélag á Íslandi ekki keypt í erlendum félögum út af því sama því að það yrði að gera kröfu til þess að dótturfélög væru öll gagnsæ. Það gæti að sjálfsögðu stofnað dótturfélag erlendis sem væri þá með alla eiginleika gagnsæs hlutafélags. En þetta er nefnilega vandinn — vandinn er alþjóðlegur.

Það sem mér finnst menn ekki horfa nógu mikið á, það er virkilega hættulegt, er annars vegar umtalsverður brottflutningur fólks af landinu. Við erum að missa aðalauðlind þjóðarinnar sem er mannauðurinn. Hins vegar er það mjög lítil fjárfesting, í sögulegu ljósi hefur hún sjaldan eða aldrei verið minni. Hvort tveggja er mjög hættulegt. Við getum lent í ákveðnum spíral fátæktar þar sem verður stöðnun og meiri stöðnun og meiri stöðnun og meiri brottflutningur, hærri skattar og enn hærri skattar og meiri niðurskurður og enn meiri niðurskurður. Við verðum að hverfa út úr þessum vítahring og fara að líta til framtíðar og finna hvar veilan liggur. Ég tel að í þessu frumvarpi liggi lausn á veilunni. Mér finnst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði að taka á málinu og koma með þessa lausn eða einhverja aðra sem eykur aftur traust á fjárfestingu í þjóðfélaginu.