139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

hlutafélög.

176. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Íslenskur aðili sem ég þekkti átti fund með bankastjórum stærsta banka Bretlands. Þeir sögðu að þeir hefðu fyrir löngu hætt að lána út á eigið fé sem byggði á hlutabréfaeign. Það þýðir að þeir eru búnir að læra af þessu en þeir vita ekki nákvæmlega hvernig taka á á vandanum, menn hafa ekki tekið á honum, því það eru ekki bara bankar sem lána heldur líka birgjar. Það er eiginlega illa farið með birgjana sem lána fyrirtækjum með því að afhenda vörur án trygginga af því eigið féð er gott, ef bankinn veit að hluti af eigin fé fyrirtækja er ekki raunverulegt eigið fé. Það er líka slæmt gagnvart litlu hluthöfunum sem við erum alla daga að plata til að kaupa í fyrirtækjum með því að hafa verðbréfahallir og verðbréfamarkaði o.s.frv. að við séum í rauninni að segja við fólk: Heyrðu, hér er ágætisfyrirtæki með gott eigið fé og hagnað og allt slíkt en bankinn veit að hluti af eigin fénu er ekki raunverulegt eigið fé.

Mér finnst mjög brýnt að menn hætti að plata litla hluthafa og birgja á þennan veg. Ég vil að menn skoði mjög nákvæmlega hvort ekki eigi að koma með svona form á Íslandi. Þá segjum við við útlendingana að við séum búin að finna lausn á þessum vanda vegna þess að við fórum í gegnum hrun. Heimurinn ætti nú heldur betur að reyna að læra af hruninu sem varð á Íslandi og menn ættu að skoða glæruna frá ríkisskattstjóra þar sem sjá má hvernig eigið fé íslenskra fyrirtækja — það er glannalegt hvað það hrundi. Menn ættu að skoða hvernig stendur á því að eign getur horfið svona yfir nótt.