139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[16:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ágæta ræðu en samt tapaði hún dálitlu á reiðiköstum og stóryrtum fullyrðingum. Hún tapaði á því. (ÁJ: Hvað áttu við með því?) Ég er í andsvari. (Forseti hringir.) (ÁJ: Tala þú fyrir þig.)

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann að gefa ræðumanni hljóð.)

Í fyrsta lagi vil ég leiðrétta það að fyrstu lögin um sjómannaafslátt, nr. 41/1954, voru sett um hlífðarfataafslátt. Ég þekki þetta mjög vel. Ég hef mörgum sinnum flutt tillögu um að afnema sjómannaafsláttinn og það er ekki af einhverjum illvilja við sjómenn, alls ekki. Það er til að allir séu jafnir fyrir skattalögum, jafnt forsetinn — sem ég lagði einu sinni til að skattfrelsi yrði afnumið hjá og maka hans; það var samþykkt — sem sjómenn. Ég er alltaf í jafnmiklum vandræðum með opinbera sendimenn erlendra ríkja. Þeir njóta skattfrelsis á grundvelli Vínarsáttmálans frá 1812 og ég kemst ekki gegn honum.

Ef hv. þingmaður hefði unnið heimavinnuna sína og talað við þingflokk sinn og ágæta menn þar, t.d. mig, um lausnir á þessum vanda hefði hann getað fundið mjög einfalda lausn. Hún felst í því að í næstu kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna samþykki sjómenn og útgerðarmenn að sjómenn borgi fyrir húsnæði um borð. Launin verði hækkuð sem nemur því, segjum um 10 þús. kall á dag, ég held að það kosti ekki minna, og þeir fái dagpeninga eins og aðrir sem eru við störf fjarri heimilum sínum. Það gæfi þeim miklu meira og þá eru allir jafnir fyrir lögunum.

Það mætti líka láta þá borga fæði því að það er engin stétt í landinu sem borðar eins dýrt fæði vegna þess að kokkurinn er á einum og hálfum (Forseti hringir.) hlut.