139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á í vandræðum með að svara, það voru ekki margar spurningar sem komu fram í máli hv. þingmanns heldur nefndi hann þá sem voru ekki í salnum. Til að árétta það þá er hv. þm. Atli Gíslason formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, svo það fari ekki á milli mála.

Ég staldra hérna við, gerði það í ræðu minni áðan og í utandagskrárumræðu. Ég sit í hv. samgöngunefnd. Mér eru öryggismál sjómanna kær. Ég hef miklar áhyggjur af þeim og mikinn áhuga á þeim.

Við kölluðum til að mynda í fyrra forsvarsmenn Landhelgisgæslu Íslands á fund samgöngunefndar til að fara yfir stöðuna eins og hún er. Staðan er þannig að okkur vantar klárlega eina þyrlu í viðbót. Okkur vantar líka vaktir til viðbótar til að geta verið með þann mannafla og þyrluflota sem við þurfum til að tryggja öryggi sjómanna.

Nú er það þannig að ákveðna daga í mánuði er ekki hægt að bjarga lífi sjómanna hvort sem þeir eru veikir eða eitthvað annað hefur komið upp á ef það er fyrir utan 20 mílur. Það segir allt sem segja þarf fyrir menn sem hafa einhvern tíma verið til sjós. Við skulum rifja það upp að stærri togararnir mega í mörgum tilfellum ekki vera nær landhelginni en 12 mílur. Við skulum átta okkur á þeirri grafalvarlegu stöðu. Ég tel að við þurfum að bregðast við henni. Ég hef sett fram ákveðnar hugmyndir um hvað hægt er að gera en ekki hefur verið vel tekið í það. Þetta er grafalvarlegur hlutur sem við þurfum að ræða enn frekar.