139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útgáfa vegabréfs til íslensks ríkisborgara.

[10:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 18. desember á síðasta ári ákvað Alþingi með lögum að veita ungu barni, Jóel Færseth Einarssyni, íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Tilgangurinn var sá að auðvelda foreldrum þessa barns að koma með það hingað til Íslands.

Í dag, þann 27. janúar, hefur innanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess af óskiljanlegum ástæðum ekki enn séð ástæðu til þess að gefa út vegabréf handa barninu til að það geti ferðast hingað til Íslands.

Virðulegi forseti. Ég ætlast til þess eins og aðrir alþingismenn að framkvæmdarvaldið í landinu, í þessu tilviki ráðuneyti hæstv. innanríkisráðherra, virði þau lög sem hér voru sett og lög landsins og hagi ákvörðunum sínum í samræmi við þau og þann vilja Alþingis sem bjó að baki lagasetningunni um að veita barninu ríkisborgararétt. Sú tregða að gefa ekki út vegabréf verður ekki varin með því að óljóst sé um það hver fari með umráð drengsins eða forræði, fæðingarvottorðið liggur fyrir. Það er staðfest af indverskum yfirvöldum og hlýtur að gilda samkvæmt efni sínu. Þar við bætist að enginn á Indlandi gerir kröfu um að drengurinn verði þar áfram.

Í 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar segir að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins né verði honum vísað úr landi. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar verður ekki misskilið og meginregla íslensks barnaréttar og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kveður á um það að taka beri ákvarðanir á þann hátt að það sé barninu fyrir bestu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvers vegna vegabréfið handa unga barninu hafi ekki verið gefið út, (Forseti hringir.) hvenær það verði gert og hvenær hæstv. ráðherra og ráðuneytinu ætlar að snúast hugur í þessu máli og tryggja það (Forseti hringir.) að þetta barn geti komið heim til Íslands eins og aðrir íslenskir ríkisborgarar.