139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við spurningum ESB.

[10:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessa vikuna hafa staðið yfir svokallaðir rýnifundir um landbúnaðarmál suður í Brussel. Undirbúningur að þeim rýnifundum hefur verið allnokkur og hefur að sjálfsögðu farið að mestu leyti fram á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins ásamt utanríkisráðuneytinu. Það er eðlilegur undirbúningur. Frá því var greint að svör hefðu borist við þeim spurningum sem Evrópusambandið hafði lagt fyrir íslensk stjórnvöld frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og eðli málsins samkvæmt urðu þau svör að fara í gegnum utanríkisráðuneytið. Þar voru þau ritskoðuð eða gerð tilraun til þess. Niðurstaðan varð sú að fara ekki með þessi svör með þeim hætti út til viðræðna við Evrópusambandið heldur yrði það gert á þann hátt að tiltekin svör voru tekin út úr sem ekki voru þóknanleg hæstv. utanríkisráðherra og þau voru síðan flutt munnlega.

Nú spyr ég: Hvers vegna var þetta gert svona? Var hæstv. utanríkisráðherra ósammála þeim svörum sem komu fram frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Telur hæstv. utanríkisráðherra að þau svör hafi á einhvern hátt ekki verið rétt? Hvers vegna var tekin um það ákvörðun að flytja hluta af þessum svörum munnlega en ekki skriflega? Var þetta einhvers konar feimnismál? Ég spyr að lokum: Hafa fulltrúar Evrópusambandsins sem tóku þátt í þessum samningaviðræðum óskað eftir því að þessi svör verði veitt skriflega og ef svo er, verður orðið við því?