139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

Landeyjahöfn.

[11:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans svo langt sem þau ná og loforð hans um að hann muni koma með nánari upplýsingar inn í þingið síðar og ég vona að það verði sem allra fyrst.

Það liggur fyrir að sú óánægja sem ég nefndi sem er hjá bæjarbúum í Vestmannaeyjum tengist fyrst og fremst því að fá ekki að nota þá stórkostlegu samgöngubót sem Landeyjahöfnin er. Það er mikil ánægja hjá bæjarbúum með höfnina og fólk hefur svo sannarlega fundið fyrir því hversu stórkostleg samgöngubót og framför þetta er fyrir samfélagið. Það skiptir geysilega miklu máli að hæstv. innanríkisráðherra beiti sér af afli að tryggja það að dæluskipið komi sem allra fyrst til Vestmannaeyja þannig að hægt verði að sigla. Veður hefur verið ágætt t.d. þessa vikuna.

Við höfum líka séð hvers konar álag þetta hefur verið á starfsmenn. Þeir eru að vinna allt að því 15 tíma í einni siglingu auk þess sem verið er að gera kröfu um að t.d. þernur þrífi skipið. Þessi óvissa leiddi m.a. til uppsagnar þriggja starfsmanna nú nýlega.