139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er miklu stærra en svo að menn geti talað um það af þeirri léttúð sem mér finnst ráðherrann gera. Hann þykist reyndar taka því mjög alvarlega en reynir að beina sjónum fólks að þáttum málsins sem ættu að vera aukaatriði hér. Á þessari stundu, eftir að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í fyrsta sinn á Íslandi að almennar kosningar séu ógildar, kosningar sem í var jafnframt minnsta kosningaþátttaka í lýðveldissögu okkar, vill hæstv. ráðherra láta umræðuna snúast um að Hæstiréttur hafi brugðist og að lögin hafi þrátt fyrir allt verið ágæt. Nú, eða að sveitarstjórnirnar hafi brugðist eða jafnvel allsherjarnefnd Alþingis en ekki þeir sem keyrðu málið í gegn.

Maður hlýtur líka að spyrja sig, þegar ráðherrann talar svona: Hafa menn eitthvað lært? Í andsvari sínu segir ráðherrann: Ja, þetta skyldi þó ekki snúast um pólitík? (Forseti hringir.) Þar er hann að feta sig inn á sömu braut og hæstv. forsætisráðherra sem segir málið allt saman Sjálfstæðisflokknum að kenna. Heyr á endemi.