framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.
Virðulegi forseti. Ég bar þá von í brjósti þegar þessi umræða hófst að hæstv. innanríkisráðherra mundi koma upp og reifa málið og koma með lausnir á þeim vanda sem kominn er upp en ekki lesa upp úr úrskurði Hæstaréttar.
Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ráðuneytið gera við því að búið er að gefa út kjörbréf til 25 stjórnlagaþingsfulltrúa? Hvernig á að leysa það vandamál? Hvernig ætlar innanríkisráðuneytið að bregðast við útlögðum kostnaði upp á rúmlega hálfan milljarð? Sá peningur er farinn út um gluggann og verður ekki endurheimtur. Hvað ætlar ráðherrann að gera í því að Hæstiréttur, sem gerir það eitt að fara að fyrirmælum laganna sem Alþingi setti, er borinn þungum sökum?
Mig langar til að vísa í þá staðhæfingu sem ráðherrann varpaði hér upp, hann kennir sveitarfélögunum um framkvæmd kosninganna en sveitarfélögin gerðu það eitt (Forseti hringir.) að taka við skipunum frá landskjörstjórn, sem tók við skipunum úr dómsmálaráðuneytinu fyrrverandi, sem tók við (Forseti hringir.) skipunum frá hæstv. ráðherra.