139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mikill áhugamaður um aukna alþjóðlega samvinnu en seint hefði mér dottið í hug að hann treysti dómstólnum í Karlsruhe betur en Hæstarétti Íslands. Þessi ræða var auðvitað til þess flutt að varpa vafa á það hvort niðurstaða Hæstaréttar væri í raun og veru rétt, ekki satt? Það var málflutningur utanríkisráðherrans. Hann gengur í lið með innanríkisráðherranum og heldur áfram að halda á lofti vafanum um það hvort þetta hafi verið skynsamlegt hjá Hæstarétti. (Gripið fram í: Má það ekki?) Nú koma ráðherrarnir hver á fætur öðrum og grafa undan trausti til æðsta dómstigsins. Staðreyndin er sú að þessi sjónarmið voru öll reifuð fyrir æðsta dómstiginu og menn eiga að bera virðingu fyrir þeirri niðurstöðu sem þar fæst.

Hér er kallað eftir dæmum um það sem kynni að hafa haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Við skulum bara horfa til alls þess sem kærendurnir töldu upp í málflutningi sínum . Ef mistekst að halda leynilega kosningu, ef menn fá ekki að fylgjast með talningu atkvæða, ef menn hafa efasemdir um að talningavélar telji rétt, ef mönnum finnst framkvæmd kosninganna að öðru leyti brjóta í bága við grundvallaratriði laga um framkvæmd kosninga þá kemur upp vafi og vafinn dugar til að leiða fram þessa niðurstöðu. Það er mín skoðun. En hæstv. ráðherrum finnst greinilega engu máli skipta þó að þjóðin þurfi að búa við vafa um það hvort framkvæmd kosninga hafi verið í lagi. Ef það er vafi þá þarf að eyða honum. Það er ekki hægt að búa við það við framkvæmd almennra kosninga í landinu að það ríki almennur vafi um hvort rétt hafi verið staðið að málum. Eða er það svo, hæstv. utanríkisráðherra, að það skipti engu máli hvort kosningar eru leynilegar eða ekki? Skiptir engu máli hvort menn fái að fylgjast með talningu atkvæða eða ekki? Eiga menn að gera tilraunir í almennum kosningum, á borð við þá sem hér var gerð og hæstv. innanríkisráðherra hefur farið yfir að menn hefðu verið að feta sig inn á nýjar brautir með, (Forseti hringir.) þegar svona stór mál eru undir? Ég tel ekki.