139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er varla að það taki því að taka þátt í andsvörum við hv. þingmann sem telur sig þess umkominn að gefa út lista yfir þá þingmenn sem eiga að segja af sér. Hann er talsmaður þjóðarinnar, hv. þingmaður, hefur enga trú á lýðræðinu, almennu kosningafyrirkomulagi, hefur enga trú á flokkastarfinu og telur að það sé hægt að fela þjóðinni með einhverjum óskipulögðum hætti að semja nýja stjórnarskrá.

Ég tek ekki þátt í þessari delluumræðu með hv. þingmanni. Ég get hins vegar svarað honum því að ég hef ekki haft trú á því að það væri skynsamlegt að koma á fót ráðgefandi stjórnlagaþingi eða stjórnlagaþingi með löggjafarvald ef út í það er farið. Ég treysti Alþingi, ég treysti lýðræðinu í landinu, ég treysti því stjórnskipulagi sem við höfum búið við og hefur skilað okkur miklum árangri. Við búum í einu fremsta lýðræðisþjóðfélagi í heiminum. Við höfum byggt hér upp mikið velferðarsamfélag og við höfum risið úr mestu fátækt í Evrópu og komist í fremstu röð þjóða heimsins í lífskjörum. Hv. þingmaður getur notað ræðutíma sinn hér og starfstíma á þinginu til að tala allt þetta niður en ég ætla ekki að taka þátt í því. Ég vil tala upp stolt þjóðarinnar, tala upp virðingu gagnvart Alþingi. Ég vil tala kjark í þjóðina en ekki flytja þennan málstað sem hv. þingmaður kemur ævinlega hér upp með og talar af lítilsvirðingu um störf þingsins og störf þingmanna almennt.