139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:03]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það var athyglisvert að heyra að hv. þingmaður telur að hugtakið pólitísk ábyrgð og álitshnekkir eigi ekki við um Sjálfstæðisflokkinn. Það er líka athyglisvert að hann virðist ekki hafa lesið níu binda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem talað er einmitt um störf Alþingis og hverjir annmarkar eru á því. Þar kemur fram, hv. þingmaður, hvað olli hér hruninu. Það eru gallar í framkvæmd starfa Alþingis og þá þarf að laga. Meðal annars þess vegna er meiri nauðsyn á stjórnlagaþingi nú en nokkru sinni fyrr.

Ég endurtek spurningu mína til hans: Hvað mun Sjálfstæðisflokkurinn gera þegar kemur vonandi að því að hér verður kosið aftur til stjórnlagaþings?