139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvers virði er ráðgefandi þing? spyr hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hvers virði er það að hlusta á þjóðina? (Gripið fram í: Gerðu bara …) (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Já, hvað …?) Stjórnlagaþing er á dagskrá. Óskhyggja hv. þingmanns um að hér verði ekkert stjórnlagaþing (Gripið fram í.) mun ekki ná fram að ganga. Spurningin er einungis þessi: Hvernig ætlum við að halda þetta stjórnlagaþing? Ætlum við að gera það með því að kjósa aftur eða ætlum við að gera það með því að Alþingi veiti þeim fulltrúum sem kosnir voru sitt umboð til að ganga til þeirra starfa sem Alþingi ætlaðist til með lögunum sem sett voru hér um stjórnlagaþing fyrir nokkru? Um þetta snýst málið. Það er oft auðvelt að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin og það finnst mér einmitt vera einkennið á málflutningi hv. þm. Bjarna Benediktssonar núna þegar hann vill varpa ábyrgðinni út og suður en forðast engu að síður að ræða þá ábyrgð sem við stöndum frammi fyrir hér sem löggjafarþing (Forseti hringir.) og sem einstaklingar á löggjafarsamkundunni.